Hópur alls óþekktra tónlistarmanna hefur náð mikilli spilun á streymisveitunni Spotify, með einfaldri, oft endurtekningasamri tónlist. Að baki tónlistarmönnunum er sænskt útgáfufyrirtæki sem hefur hagnast vel en forsvarsmenn þess vilja sem minnst segja um árangurinn.
Lagið Polar Circle er með íslenska tónlistarmanninum Ekfat. Hann heitir réttu nafni Guðmundur Gunnarsson. Hann lærði klassískan píanóleik en starfar í dag með öðru tónlistarfólki í Smekkleysa Lo-Fi Rockers. Guðmundur á miklum vinsældum að fagna á Spotify og hefur lagið minimalíska sem við heyrðum brot úr hér áðan, til dæmis náð þremur og hálfri milljón spilana. Önnur lög Ekfats eins og Loki, Geyser og Frostbite eru þó minna spiluð.
Ef lesanda finnst þetta líta undarlega út allt saman og hefur aldrei heyrt um tónlistarmanninn Ekfat, þá er það ekkert skrýtið. Ekfat er ekki til. Ekki frekar en ítalski plötusnúðurinn Ludvig Freso, sem er sagður þekktur í neðanjarðarsenunni í Mílanó eða djassistinn Vera Fernandes eða írski píanistinn Milo Edale. Nöfnin og æviágripin sem birtast með á síðum þeirra á Spotify, eru hreinn skáldskapur, eins og upplýst er í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter.
Mörg hundruð tilbúnir tónlistarmenn hjá sömu útgáfu
Blaðamenn Dagens Nyheter keyrðu saman gögn frá Spotify með gögnum um eigendur höfundarréttar laga. Og komust að því að á Spotify eru hundruð tónlistarmanna sem eru bara uppspuni - loft. Tónlist er auðvitað gefin út undir alls konar listamannanöfnum og tónlistarfólk semur hvert fyrir annað og í samstarfi - ekkert undarlegt við það. En fyrirkomulagið sem Dagens Nyheter fjallar um er af allt öðru tagi.
Alls fundu blaðamennirnir 830 tónlistarmenn á Spotify sem tengdust einu og sama útgáfufyrirtækinu: Firefly Entertainment. Samkvæmt heimildamönnum Dagens Nyheter virðist fyrirtækið hafa fengið nokkra sænska tónlistarmenn til að setja saman einfalda takta og smá laglínu, hratt og ódýrt, og birta svo á Spotify.
Þrír höfundar semja fyrir tugi tilbúinna
Bak við Efat, og nokkra tugi annarra tilbúinna listamanna, eru til dæmis þrír náungar í Gautaborg. Og maður nokkur í Karlstad hefur samið tónlistina fyrir að minnsta kosti 64 nöfn á Spotify. Sá er með hátt í átta milljón hlustendur á mánuði, þegar allt er talið. Til samanburðar er Björk Guðmundsdóttir með tæplega tvær milljónir hlustenda á mánuði. Og sænska söngkonan Robyn er með þrjár og hálfa.
En hvernig gerist það að gjörsamlega óþekktir tónlistamenn ná svona mikilli spilun? Jú, það gerist í gegnum spilunarlista Spotify. Á Spotify eru þúsundir spilunarlista með tónlist fyrir hvers kyns tilefni. Og margir notendur kveikja bara á Spotify og láta einhverja tónlist rúlla, sjálfkrafa. Um sextíu þúsund nýjum lögum er hlaðið upp á Spotify á hverjum degi. Og hvort lögin rata inn á einhvern lista, hefur mikil áhrif á hve mikið þau eru spiluð. Fyrirtækið Firefly Entertainment virðist svo vera sérstaklega... heppið kannski? Að minnsta kosti 60% af tónlistarmönnum þess komast á einhvern af spilunarlistum Spotify.
Peningarnir streyma þess vegna inn. Á árinu 2020 námu tekjur fyrirækisins 65 milljónum sænskra króna. Það er um einn milljarður íslenskra. Eigendur greiddu sér jafnvirði rúmra tvö hundruð milljóna í arð. Það er samt ekki bara heppni að baki gróðanum, að því er rannsókn Dagens Nyheter bendir til.
Kært með útgefandanum og stjórnanda Spotify
Meðal æðstu stjórnenda Spotify var lengi Svíi að nafni Nick Holmstén. Hann lagði mikla áherslu á að þróa áfram hugmyndina um spilunarlista meðan hann starfaði hjá Spotify. Það var í sex ár, frá 2013-19, þegar hann stofnaði nýtt fyrirtæki í New York í samstarfi við áðurnefnt Firefly. Í umfjöllun Dagens Nyheter kemur einnig fram að Holmstén og einn af stofnendum Firefly séu nánir vinir og fjöldi mynda af þeim saman á samfélagsmiðlum
Hvorki Holmstén né forsvarsmenn Firefly vildu ræða málið við blaðamenn Dagens Nyheter. Og talsmaður Spotify lýsti því bara yfir að það væri hagur hlustenda sem væri í forgrunni þegar raðað væri á spilunarlista en ekkert annað. En vildi hvorki svara spurningum né veita viðtal.