Nemendur í þremur skólum á landsbyggðinni taka þátt í nýsköpunarkeppni, meðal annars við þróun nýrra umbúða fyrir sjávarfang. Það er hluti verkefnisins Grænir frumkvöðlar framtíðar og því er ætlað að vekja áhuga á loftslags- og umhverfismálum.
Takast á við áskoranir í sjávarútvegi
Krakkarnir eru allir í 9. bekk og hafa í vetur unnið með námsefni þróað af Matís, með styrk úr Loftslagssjóði um umhverfis- og loftslagsmál. Þá þekkingu nýta þeir meðal annars til nýsköpunar. Nemendur fengu kynningu frá fyrirtækjum í sjávarútvegi í sínu bæjarfélagi til að heyra hvaða áskoranir væru þar í umhverfismálum.
Gestur Sigurjónsson, umsjónarkennari 9. bekkjar í Árskóla, segir fyrirtækin Dögun og Fisk Seefood á Sauðárkróki, hafa verið með kynningu fyrir nemendurna. „Og þau sögðu okkur frá að það væri mikið plast enn þá notað við pökkun, úti á sjó og rækjunni í landi og krakkarnir eru sem sagt að reyna að finna lausn á því vandamáli.“
Í Árskóla á Sauðárkróki var síðan keppni á milli nemendahópa um bestu lausnina.
Ál og roð í stað plasts
Justine Vanhalst, verkefnastjóri Grænna frumkvöðla framtíðar hjá Matís segir mikilvægt fyrir krakkana að gera frumgerð af verkefnum sínum. „Það hjálpar þeim að gera frumgerð til að tengjast hvaða lausn þau eru að gera. Þau eru að prófa og nota alls konar tæki eins og leisera og þrívíddarprentara. Þau nota aðstöðu Fab Lab til að búa til frumgerðirnar.“
Hulda Þórey Halldórsdóttir, nemandi í 9. bekk í Árskóla var með sínum hóp að útbúa hugmynd að umhverfisvænni umbúðum fyrir fisk og rækju. „Við erum að vinna í því að gera nýja kassa sem að við þurfum þá ekki að leggja ofan á plastið á milli flakanna.“
Þorsteinn Ingi Kárason og Magnús Ingi Guðjónsson, eru í sama hóp og Hulda. Þeir voru að útbúa frumgerðirnar af kössunum. „Ef maður myndi gera svona úr álkassa, í staðinn minnka plast og pappa og svona. Það er náttúrulega meiri kuldi sem hann heldur,“ segir Þorsteinn.
Í hópnum sem Páll Pálmason er í var verið að vinna með roð. „Planið okkar var að hakka roðið svo það væri hægt að búa til plötur úr því til að setja á milli flaka. Það er venjulega er notað plast við þetta, þannig að þetta er svona lífrænt efni.“
Hinir skólarnir tveir, Grunnskóli Bolungarvíkur og Nesskóli á Neskaupstað halda samskonar keppni síðar. Sigurvegarar úr öllum skólunum munu síðan keppa sín á milli og úrslit verða kynnt nýsköpunarviku í maí.