Visitasíur, sýning Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Marks Wilson í Listasafninu á Akureyri, hlaut Myndlistarverðlaun Íslands í ár.

Bryndís og Mark hafa árum saman unnið að listrannsóknum á náttúru og samtali dýra og manna. Verk þeirra hafa skírskotanir til náttúruverndar, samfélagsbreytinga og siðferðis. Visitasíur voru skýrt dæmi um þetta, en sýningarstjóri var Æsa Sigurjónsdóttir. 

Auk Bryndísar og Marks hlaut listhópurinn Lucky three hvatningarverðlaun og Kristján Guðmundsson hlaut heiðursviðurkenningu fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar. 

Mark og Bryndís verða með fyrirlestur um sýninguna í myndlistardeild Listaháskóla Íslands á morgun, föstudaginn 25. nóvember. 

Aðspurður um hvað sé aðaldrifkraturinn í listsköpun þeirra er svar Marks einfalt: „List snýst um að hreyfa við fólki. Það er okkur mikilvægt.“ 

Hvað er það fyrsta sem þú sérð?

Í Visitasíum mátti sjá hvítbirni, sem hafa verið viðfangsefni tvíeykisins um árabil. „Við unnum í kortlagningu á komum hvítabjarna til Íslands og reyndum að finna eins nákvæmlega og hægt var hvar þeir myndu hafa komið að landi. Auðvitað er aldrei hægt að vita það 100% en við notuðum ímyndunaraflið, fórum á nokkra staði og vorum kannski sem listamenn að hugsa: ef maður stendur í sjónum og horfir á landið og reynir að setja sig aðeins í hugarheim dýrsins sem er búið að synda þarna í marga marga daga, vikur kannski, að koma að landi örþreyttur - hvað sérðu? Hvernig tekurðu inn landið, hvað er það fyrsta sem þú sérð?,“ segir Bryndís. 

Þegar tvö rándýr mætast

Í umsögn dómnefndar um sýninguna segir: Sýningin er afrakstur margra ára rannsóknarverkefnisins Ísbirnir á villigötum, sem þau hafa unnið í samvinnu við sérfræðinga á sviði þjóðfræði, náttúru- og umhverfisfræði. Verkefnið snýst um að auka þekkingu á tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum hamfarahlýnunar. Til þess er sjónum beint að hvítabjörnum á Íslandi í fortíð og nútíð. Verkin á sýningunni varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd, skoða frásagnir af árekstrum fólks og hvítabjarna í gegnum tíðina og hvað það er sem gerist þegar þessi tvö rándýr mætast.“ 

Nánar má kynna sér verk Bryndísar og Marks hér