Matvælastofnun hefur veitt Fiskeldi Austfjarða rekstrarleyfi fyrir laxeldi í firðinum þrátt fyrir andstöðu íbúa. Þeir vilja ekki að eldið sé beint fyrir framan þorpið og sjáist út um stofugluggann.

Á Stöðvarfirði ætlar Fiskeldi Austfjarða að ala 7 þúsund tonn af laxi árlega en vegna þess hve fjörðurinn er nálægt Breiðdalsá verður allur laxinn að vera ófrjór. Fyrirhuguð staðsetning á eldiskvíunum leggst illa í marga íbúa; eldissvæðið verður beint á móti þorpinu. Skipulagsstofnun metur sjónræn áhrif talsvert neikvæð; eldið geti haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna af landslagi og náttúrulegu yfirbragði fjarðarins.

Þórir Snær Sigurðsson er einn þeirra íbúa sem hefur látið í sér heyra. Hann safnaði undirskriftum gegn eldinu og gagnrýnir staðsetninguna harðlega. „Ef ég mætti ráða þá væri hún ekki í þessum firði yfirhöfuð en þetta er sennilega versti staðurinn svona beint á móti þorpinu.“

„Þetta er allt of nálægt. Ég til dæmis bý við aðalgötuna eða þjóðveg eitt og hef þeta bara fyrir framan mig eða stofugluggann þegar ég lít út og mér finnst það ekki mjög spennandi. Þetta er alls ekki að gera sig. Nú er þoka þannig að við sjáum ekki fallegu fjöllin við stofugluggann en hérna muni kvíarnar vera. Laxeldið. Bara við stofugluggann. Mér finnst það hræðilegt. Ég kvíði þessu mikið. Ég held að húsverð og allt muni falla. Og þau eru nú ekki dýr fyrir húsin þannig að ég kvíði þessu mjög,“ segir Jóhanna Guðný Halldórsdóttir, íbúi á Stöðvarfirði. 

Fiskeldið hefur líka jákvæð áhrif, því fylgja störf og umsvif en það sem gerir íbúa ósátta er að sveitarfélagið hafi ekkert um skipulag á firðinum og staðsetningu eldissvæða að segja. Reyndar er unnið að strandsvæðaskipulagi Austfjarða en það gildir ekki um eldið í Stöðvarfirði sem var tilkynnt áður en þau lög tóku gildi. Ekkert skipulag er því til að verja hagsmuni íbúa. Þóra Björk Nikulásdóttir eldar mat í skólanum og er ósátt við framkomu eldismanna. „Það komu hérna menn og sátu hérna niðri í búðinni. En það voru engir með þeim. Þeir eiginlega hökkuðu í sig fólkið sem kom og vildi fá krefjandi svör. Ég ræddi sjálf ekki persónulega við þá. Ég treysti mér ekki til þess. Ég veit bara að ég er sár og reið út í stjórnvöld og þessa ríku karla fyrir það að þeir ráðskist hreinlega með firðina okkar.“