Dómsmálaráðherra segir að núverandi fyrirkomulag áfengissölu sé komið að þolmörkum. Hann vinnur að frumvarpi um breytingu á áfengislögum. Erfitt sé að viðhalda einokun ÁTVR á sölu áfengis. Fjármálaráðherra segir tímabært að heimila vefverslun með áfengi. 

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins stefndi tveimur netverslunum með áfengi, Bjórlandi og Sante, fyrir héraðsdóm og krafðist þess að áfengissala þeirra yrði stöðvuð. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málinu frá dómi á föstudag og taldi ÁTVR ekki hafa eftirlitsskyldu með því að farið væri að lögum um einkaleyfi ríkisfyrirtækisins til sölu áfengis. ÁTVR hefur ákveðið að kæra niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar.

Undanþága fyrir einkaleyfi byggi á lýðheilsusjónarmiðum

„Þær reglur sem hér gilda eru undanþága frá EES-samningnum. Þær undanþágur eru byggðar á lýðheilsusjónarmiðum. Það er þá til að takmarka aðgang að þessari vöru. Á sama tíma erum við að fjölga útsölustöðum um allt land. Við erum að lengja opnunartíma verslana. Frumvarpið sem ég mun leggja fram núna um heimild fyrir þessi litlu brugghús hringinn í kringum landið að geta selt áfengi yfir borðið, það er enn einn mælikvarðinn, enn eitt skrefið í því að mola undan þessum lýðheilsusjónarmiðum sem lágu til grundvallar,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

„Við þurfum að taka lögin um þessi efni til endurskoðunar og ég held að tíminn hafi hlaupið okkur upp í þessu,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vefverslun sé orðinn stærri þáttur í verslun. 

Ekki lengur hægt að rökstyðja ríkiseinokun

„Ég tel að við séum komin að algerum þolmörkum sem samfélag í rökstuðningi okkar fyrir því að viðhalda hér ríkiseinokun í þessu á þeim grundvelli sem sú undanþága fékkst. Þannig að við þurfum að skoða þessa stöðu, þetta stóra samhengi og bregðast við á þeim nótum,“ segir Jón.

„Það að opna fyrir vefverslun og taka af skarið um það að þær séu ekki andstæðar anda laganna, finnst mér vera miklu minna skref og tímabært,“ segir Bjarni.