Laugardagin 5. mars 2022 var loks í Gerðubergi hægt að halda ráðstefnu um barnabókmenntir sem um langt árabil hefur verið árlegur viðburður. Að barnabókmenntráðstefnu stendur fagfólk á skólabókasöfnum, Ibby á Íslandi - félag um barnamenningu, skóla – og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Síung, sem er barnabókmenntaafl innan Rithöfundasambands Íslands eins og Hilmar Örn Óskarsson rithöfundur sem stýrði ráðstefnunni orðaði það.
Gerðbergsráðstefnurnar um barnabókmenntir vekja ævinlega athygli áhugafólks um barnabókmenntir enda þar þreifað vel eftir púlsi þessarar mikilvægu og margslugnu bókmenntagreinar. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var Allskonar öðruvísi enda mátti á síðasta útgáfuári kenna aukins fjölbreytileika í bókum barnabókahöfunda á Íslandi.
Fjórir fyrirlesarar reifuðu þau mál á ráðstefnunni út frá ólíkum sjónarhornum. Raunveruleikinn sú skrítna skepna var flestum fyrirlesurum að umfjöllunarefni, túlkun hans, breytileiki og margbreytileg birting í barnabókmenntum en einnig tregðan gegn þeim raunveruleika sem vill troða sér að og yfirskyggja þann raunveruleika sem viðkomandi hefur kosið að skuli vera sinn. Þórunn Rakel Gylfadóttir handhafi íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir fyrstu skáldsögu sína Akam, ég og Annika sagðist í erindi sínu ekki síst hafa skrifað bókin til þess að hún sjálf áttaði sig á margbreytileika síns eigin lífs og getu til að skapa það sjálf sem og almennri tregðu til að meðtaka breytingar sem skáldsaga hennar um Hrafnhildi sem flyst með foreldrum sínum til Þýskalands og er þar sjálf öðruvísi auk þess sem þar er allt öðruvísi í hennar augum.
Atla Hrafney er transkona en í samhengi barna – og ungmennabóka myndasöguhöfundur og formaður íslenska myndasögusmfélagsins. Atla leiðir til að mynda áhugahóp um myndasögur og ólík kyngerfi fyrir ungmenni í Gerðubergi og var flestum öðrum tíðrætt um raunveruleikann og hvernig hann birtist ólíkum einstaklingum, í bókum, kvikmyndum og svo framvegis. Það geta ekki allir séð sjálfan sig í öllum, líkaminn og sjálfið hið innra tilheyrir kannski ekki sama raunveruleika og þar þykir Ötlu Hrafney myndasögur gegna veigamiklu hlutverki. Hán sneri með öðrum orðum alls konar og öðruvísi svolítið á hvolf en hán undirstrikaði mikilvægi þess að sýna hinum viðtekna normaða raunveruleika alls konar og öðru vísi en einnig og ekki síður mikilvægi þess sýna alls konar og öðruvísi sinn raunveruleika sem enn sem komið er kæmi kannski best fram í myndasögum sem reyndar eru allt of sjaldgæfar á íslensku hvort heldur frumsamdar eða þýddar. Sverrir Norland rithöfundur, þýðandi og útgefandi ræddi í fyrirlsestri sínum einkum um þrennt: Hinn fullkomna karlmann; mikilvægi þess að kenna börnum aðferðir við að segja sögur og um sína eigin bókaútgáfu Am forlag þar sem áhersla er lögð á að gefa út fallegar barnabækur, gamlar og nýjar sem opna veröldina út frá margbreytilegum sjónarhornum. Síðust á mælendaskrá Barnabókmenntaráðstefnu í Gerðubergi var ljóðskáldið og barnabókahöfundurinn Þórdís Gísladóttir sem varpaði geisla sögunnar á barnabókmenntir, höfunda þeirra og viðtakendurá öllum tímum en einnig „sjónum beint að því hvernig höfundar nútímans blanda saman malbiksgráum raunveruleika og töfrum gæddum ævintýrum svo úr verða samtímis speglar og gluggar“.
Hér að ofan má hlusta á alla fyrirlestrana fjóra í heilu lagi en úrdrætti úr þeim mátti heyra í þættinum Orð um bækur þann 14/3 og 21/3.