„Er þetta ekki bara sami leikurinn og sömu leikmennirnir og kannski sama valdaójafnvægið líka,“ spyr Þórhildur Tinna Sigurðardóttir listfræðingur um svokölluð stafræn skírteini eða NFT. Þar er átt við list sem aðeins er til á stafrænu formi. Stafræn skírteini listamanna þóttu áður byltingarkennd en markaðurinn fer sífellt vaxandi.
Viðvera fólks á netinu eykst stöðugt. Samfélagsmiðlar, fjarfundabúnaður og streymisveitur eru ráðandi tækni sem mörg gætu varla ímyndað sér hvernig er að vera án. Nú fer ný tækni eins og stormsveipur yfir tækniheiminn. Stafrænt skírteini, sem á ensku kallast Non Fungible Token eða NFT, kaupir fólk og selur með rafmynt. Rafmynt er nokkurs konar stafrænn gjaldeyrir sem notaður er til að stunda viðskipti á netinu. En nú veltir margt fólk fyrir sér hvaða viðskipti séu stunduð um NFT og hvað það hreinlega sé.
Talsvert af fé í þessu kerfi
„NFT er í rauninni bara eign sem er á internetinu, sem þú átt og stjórnar, getur fært til og selt,“ segir Kristján Ingi Mikaelsson, sérfræðingur í rafmynt, í viðtali við Chanel Björk Sturludóttur í Kastljósi á RÚV. „Sem þú aflar þér með því að kaupa af einhverjum eða hreinlega búa til sjálf.“ Hann segir að NFT sé tækni sem byggð sé á bálkakeðju, eða rafmyntum sem flest hafa heyrt um, svo sem Bitcoin, Ethereum og annarri mynt. „Það hefur myndast mikill peningur þarna, af því að margir eru að koma og taka þátt í þessu samfélagi. Þannig að það eru margir sem eiga talsvert af fé í þessu kerfi,“ segir hann.
„Síðan kemur kannski einhver listamaður og býr eitthvað til,“ segir Kristján og tekur til dæmis listamanninn Beeple sem hefur gefið út sitt fyrsta verk á NFT-formi. „Mér kannski, aðila sem er búinn að vera í rafmyntageiranum lengi, finnst það áhugavert út frá sögu rafmyntageirans og sögu listamannsins. Mig langar kannski bara að eiga þessa list.“ Kristján segir að í byrjun NFT bylgjunnar í fyrra hafi myndast verulega áhugaverður markaður. „Af því að þá voru listaverk til sölu. En í dag eru mjög margir að gefa út NFT og það er bara frábært. En við erum að færast út í meira svona meginstraumsstefnu í sölu og útgáfu af svona tegund af list.“
Spennandi að gefa út list á miðlinum sem hún er sköpuð í
Hægt er að skrá allt sem þrífst á netinu sem einstakt stafrænt skírteini. Til dæmis eiga fyrsta tvítið, myndband af Charlie sem beit í fingur bróður síns og breiðskífa frá hljómsveitinni Kings of Leon það sameiginlegt að hafa verið seld sem NFT. Þessi þróun hefur náð inn í listirnar og er mikið um að listamenn selji verkin sín með þessum hætti. Það er þó spurning hvar munurinn liggi, á hefðbundinni list sem hægt er að hengja upp á vegg og listaverkum sem eru sköpuð, seld og dreift sem einstöku stafrænu skírteini á bálkakeðju.
„Það er náttúrulega miðillinn helst, hann er mjög óhefðbundinn,“ segir Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, listfræðingur. „Þetta er stafræn list frekar en málverk eða eitthvað þannig sem við erum vön að sjá á listasöfnum.“ Hún segir að listafólk sem gert hefur listaverk sem eru söluvæn sem NFT hafi frekar verið titlað þrívíddarlistamenn og komi frekar úr grafískri hönnun eða hafi haft einhvers konar hönnunaráherslu. Í grunninn sé hvort tveggja list en það sé markaðurinn sem hafi ekki sést áður.
„Ég sem digital-listamaður bý til listina mína á skjá. Það er mjög spennandi fyrir mig að geta miðlað minni list á þeim miðli sem hún er búin til og ætluð fyrir,“ segir María Gudjhohnsen, þrívíddarlistarmaður. „Ef ég sel verkin mín á prenti er ég að glata upplýsingum. Litina á skjánum er ekki hægt að prenta á pappír.“ María segist gera hreyfimyndir og annað sem eingöngu sé hægt að sjá á stafrænu formi. „Tæknin er svo spennandi, þetta er að gjörbreyta listaheiminum og mig langaði ekki að missa af því. Tæknin er bara orðin þannig í dag að allt er að breytast,“ segir María og nefnir að fólk sé orðið vant skjám. „Auðvitað er þetta rökrétt skref.“
Lítið einstakt til í heiminum
Til er hafsjór af alls kyns efni og hægt er að búa til nánast hvað sem er á stafrænu formi. „Það er voðalega lítið sem er einstakt í heiminum í dag,“ segir Kristján. Það sem stafræn skírteini veita í krafti þeirrar tækni sem þau byggjast á er að það er eingöngu til eitt eintak af hverju skírteini. „Það er bara mjög verðmætt hugtak fyrir okkur, sem bara mannfólk, að eiga eitthvað umfram einhvern annan. Sama hjá þeim sem eru að gefa þetta út, þau eru að selja eitthvað og gera eitthvað nýtt. Kannski seinna verður það risastórt og þá njóta þau góðs af því.“
Vissulega séu stafræn skírteini ákveðin sýndarmennska. „Eins og allt sem við gerum,“ segir Kristján og ber þau saman við tískumerkin. „En við erum alltaf í einhverri sýndarmennsku og þessi viðskipti eru það.“
Sama valdaójafnvægið og áður?
Í upphafi var NFT hugsað sem byltingarkennd tækni, meðal annars til að veita listamönnum vald yfir verkum sínum með því að taka út milliliðinn og opna aðgengi að listageiranum fyrir jaðarsett fólk. Nú hafa rótgróin uppboðshús á borð við Sotheby’s stigið inn á þennan markað með sérstökum uppboðum tileinkuðum NFT-verkum. Þórhildur segist spyrja sig hvort þetta sé þá ekki bara sama kerfið nú þegar stærri leikmenn í listaheiminum eru farnir að taka þátt í tækni sem átti að vera byltingarkennd fyrir vald listamanna yfir eigin verkum. „Er þetta ekki bara sami leikurinn og sömu leikmennirnir. Og kannski sama valdaójafnvægið líka.“
María telur þó auðveldara fyrir jaðarsett fólk að komast þarna að. „Frekar en í þessum elítíska listaheimi þar sem er mjög erfitt að komast inn fyrir. Ég fékk til dæmis að taka núna þátt í Frieze-hátíðinni í LA. Það væru ábyggilega mjög mörg ár í að ég fengi að gera það ef ég væri bara í þessum fine arts heimi.“ Þarna hafi hún fengið inngöngu í þennan heim og virðist því vera sem listaheimurinn sé farinn að viðurkenna þessa grein listar. „Mér finnst það bara mjög jákvætt, vegna þess að þarna eru peningarnir,“ segir hún. „Mér finnst alltaf jákvætt þegar listamenn fá greitt fyrir vinnuna sína hvort sem það er tvíeggjað sverð eða ekki.“
Alltaf stuldur alls staðar
Í raun er ekkert því til fyrirstöðu að fara inn á þessar vefsíður og afrita verkin án þess að borga fyrir þau en María hefur ekki áhyggjur af því. „Þú getur farið á safn og tekið ljósmynd af einhverju verki og þú getur gert hvað sem er við þá mynd. Alveg eins og þú getur vistað jpg-skrá og gert hvað sem er við hana. Það er í rauninni bara siðferði að gera það ekki. Það er alltaf stuldur alls staðar, hvort sem það er NFT eða ekki.“
NFT orðin að fjöldaframleiðslu
Kristján segist vera farinn að líta á þennan NFT heim sem ákveðna fjöldaframleiðslu á ýmsa hluti. „Við sjáum að það er verið að búa til kannski þúsund listaverk sem eru eins, og breyta þeim eitthvað smá,“ segir hann og tekur til dæmis verkin Bored Apes, sem voru mjög vinsæl, og CloneX frá Nike. „Það er fjöldaframleiðsla en það safn í heild sinni er einhvers virði, af því að fólk er til í að kaupa það. Það er í rauninni bara hluti af því að skoða möguleikana sem þetta kerfi hefur, þessi tækni hefur.“ Hann segir fara þurfi varlega á þessum markaði eins og öðrum. Hátt hlutfall fólks sé að reyna að græða og alltaf reyni einhver að svindla.
„Það eru mjög spennandi tímar framundan í þessari tækni,“ segir Kristján sem telur að einungis sé hafi verið klórað í yfiborðið á því sem mögulegt er.
Rætt var við Kristján Inga Mikaelsson, Þórhildi Tinnu Sigurðardóttur og Maríu Gudjohnsen í Kastljósi á RÚV. Horfa má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.