Jón Arnar Guðbrandsson, veitingamaður og eigandi veitingastaðarins Grazie Trattoria sem verður opnaður á næstunni, auglýsir eftir gestgjafa sem er eldri en 60 ára. Hugmyndina að þessu fékk Jón þegar hann heyrði viðtal í útvarpinu við eldri konu sem gekk illa að fá vinnu þrátt fyrir flotta ferilskrá.
„Þegar ég er að hugsa um hverra ég lít upp til; ég lít upp til mömmu og ömmu og pabba og afa og þetta fólk sem er svo bara við hestaheilsu í dag. Ég heyrði þetta viðtal í útvarpinu og það snerti mig strax. Og ég fór að hugsa hvað mesta áhyggjuefnið er við að opna þennan stað. Jú, það er starfsfólk og það er bara rosalega erfitt að fá starfsfólk í dag í þennan geira,” sagði Jón Arnar í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Að eigin sögn fær Jón Arnar um 30 starfsumsóknir ef hann auglýsir eftir fólki til að vinna í sal á veitingastað. Af þeim býður hann líklega fjórum í viðtal en það mætir ekki nema einn.
„Og á meðan erum við með hóp af fólki á þessum aldri, 60 ára, 70, 75, 80 ára, við alveg hestaheilsu, einangrað heima, langar að gera eitthvað en fær ekkert að gera og, þú veist, auðvitað eigum við að fá þetta fólk og hafa það með okkur,” segir Jón Arnar.
Í ferðum sínum til Ítalíu hefur Jón Arnar kynnst þeirri hefð að á veitingastöðum taki roskið fólk á móti honum, faðmi hann jafnvel og bjóði hann velkominn. Þetta finnst honum vanta hér á landi.
Jón Arnar rifjar upp atvik frá því að hann hófst handa við að gera upp húsnæði á Hverfisgötu í Reykjavík þar sem Grazie Trattoria verður. Hann var í óðaönn að bera inn húsgögn þegar tveir menn um sjötugt gengu hjá og spurðu hvað gengi eiginlega á.
„Ég segi: „Hérna er að opna ítalskur veitingastaður.” Og þá lítur annar svona á hinn og segir: „Guðmundur, þetta gæti nú verið eitthvað fyrir þig, vantar þig ekki vinnu? Hann er gamall kokkur þessi.” Og ég segi bara: „Strákar, það er auglýsing um helgina, mig vantar sextíu plús, hann sækir bara um!” Andlitin á þeim ljómuðu svo og glampinn í augunum og ég hugsaði bara: „Þetta er snilld”.”
Jón Arnar mætir á skrifstofuna snemma í fyrramálið til að fara yfir hundruð starfsumsókna. Hann segist ætla að bjóða í viðtöl á næstunni og vonast til að geta ráðið um 16-20 manns frá 60 ára og upp úr. Ekki er gert ráð fyrir að fólk verði í fullri vinnu heldur mæti bara endrum og sinnum.