Ungur Akureyringur sem hefur undanfarna daga verið sjálfboðaliði við landamæri Póllands og Úkraínu segir ástandið versna dag frá degi. Hann ætlar að vera á svæðinu eins lengi og þörf er á.
Byrjuðu að aðtoða fólk í gegnum netið
Um leið og fréttist af innrás Rússa í Úkraínu hóf fjöldi fólks um allan heim að aðstoða heimafólk við að komast úr landi. Einn þeirra er hinn rúmlega tvítugi Elvar Orri Brynjarsson. „Það var fullt af fólki sem hafði ekki hugmynd hvernig það átti að gera þetta, kannski átti ekki bíl, enga vini eða fjölskyldu á svæðinu til að aðstoða og þá vorum við að vinna sem tengiliðir í rauninni, fyrir þau. Komum þeim í samband við pólska bílstjóra sem voru á svæðinu og komum þeim út þannig,“ segir Elvar.
Með tímanum fór það að verða erfiðara að hjálpa til í gegnum tölvur og þá var bara eitt í stöðunni. „Þá ákváðum við bara sem hópur að koma okkur út og eins lengi og það er þörf á okkur þá verðum við þarna úti.“
Staðan versnar dag frá degi
Hópurinn sem Elfar vinnur með heldur til við landamæraborgina Hrebenne. Verkefnin eru ærin en þau fara daglega inn í Úkraínu með mat og nauðsynjar, auk þess að sækja fólk sem vill flýja ástandið. Hann segir ástandið í Úkraínu versna dag frá degi. „Staðan á Pólsku hliðinni er að batna en hún er að versna á Úkraínsku hliðinni. Það vantar allt þetta þar. Lengdirnar í röðinni eru að lengjast með hverjum degi. Þegar ég mætti þá voru nokkur þúsund í röð á hverjum degi. Núna eru í kringum 17-20 þúsund.“
Hafa grátið saman á kvöldin
Hann segir að þó hætturnar leynist víða sé ekki tími til þess að hugsa um þær. „Ég hef ekki upplifað neina hættu per se, en við höfum alveg heyrt af því. Fólk sem ég þekki, það hefur verið skotið á það þegar það er að keyra í Úkraínu.“
Hvað sagði fólkið þitt hérna heima þegar þú tilkynntir að þú værir að fara upp í flugvél og fara á þetta stríðshrjáða svæði?
„Það var náttúrlega ákveðið sjokk. Ég sagði svo sem ekki mörgum frá því, það er erfitt að útskýra. En það var almennt séð frekar mikill stuðningur.Svo hafa verið tímar þar sem allur hópurinn fer að gráta saman eftir erfiðan dag.“