Um fimmtíu kvenfrumkvöðlar komu saman í Háskólanum á Akureyri þar sem þær fengu leiðsögn um hvernig hægt er að láta viðskiptahugmyndir verða að raunveruleika. Konur í nýsköpun eiga enn erfiðara en karlar með að fjármagna verkefni sín og því sé mikilvægt að styðja við konur í greininni.

Láti hugmyndir verða fljótt að veruleika

Lotan sem fer fram á Akureyri er hluti af nýsköpunarhraðli sem stendur yfir í febrúar og mars. Þetta er í annað skipti sem hraðallinn er haldinn hér á landi en Háskóli Íslands heldur utan um verkefnið, sem nefnist Academy for Women Entrepreneurs. Það er styrkt af bandaríska sendiráðinu og eru samskonar verkefni starfrækt um allan heim. 

Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, leiðbeinandi í nýsköpunarhraðlinum, segir að verkefnið snúist um að konur komi inn með viðskiptahugmynd og séu fljótar af stað með hana.  Þess vegna heiti þetta þetta hraðall.

Hraðallinn samanstendur af námskeiðum á netinu og vinnulotum. Konurnar komu saman á Akureyri til að vinna að eigin hugmyndum og fá til þess leiðsögn reynslumeiri kvenna. 

Vilja ná til alls konar kvenna

„Við erum á Akureyri því við erum að ná til kvenna á landsbyggðinni og kvenna af erlendum uppruna. Þess vegna vildum við taka hópinn frá höfuðborgarsvæðinu þar sem flestar búa, fara í vinnulotu í Háskólann á Akureyri og bara styrkja tengslin,“ segir Sandra Mjöll.

Alls eru þrjátíu og sjö viðskiptahugmyndir sem voru valdar til þátttöku og eru hugmyndirnar afar fjölbreyttar.

Hátæknigróðurhús og gervigreind

Hörn Halldórudóttir Heiðarsdóttir er ein þriggja sem standa að teymi sem nefnist Ylur. „Hugmyndin okkar er sem sagt í rauninni að gera byggingu nýrra hátæknigróðurhúsa að raunhæfum möguleika með því að vinna greiningarvinnuna og búa til viðskiptamódel sem svarar öllum þeim spurningum sem þarf að svara. Markmið okkar eru að nota ónýttar auðlindir, rafmagn, koltvísýring og hita, helst frá jarðvarmavirkjun til gróðurhúsaræktunar.“

Áslaug Eva Björnsdóttir er með verkefni sem heitir „Nakama Gender Balance“.  „Þar sem við erum að þróa gervigreind til að skoða samskiptamynstur kynjanna á vinnustaðafundum og vinna að vitundarvakningu hvernig staðan raunverulega er á þessum fundum.“ 

Mikilvægt að fá stuðning

Konurnar sem eru þátttakendur í hraðlinum segja að mikilvægt sé að fá stuðning frá öðrum konum í svipuðum sporum og þær sjálfar. 

„Þetta er bæði tengslanet, þetta er mjög mikill stuðningur og mjög mikilvægt að fá endurgjöf frá sérfræðingum,“ segir Hörn.

Áslaug Eva Björnsdóttir segir konur enn í miklum minnihluta í frumkvöðlageiranum. „Þær eru að fá miklu minna fjármagn inn í sínar hugmyndir. Þannig að leggja áherslu á þetta skiptir mjög miklu máli.“