Stefnt er að því að nota sýndarveruleika til þess að hjálpa fólki með þroskahömlun að undirbúa sig fyrir aðstæður daglegs lífs, sem gjarnan geta reynst því erfiðar. Samtökin Þroskahjálp og Virtual Dream Foundation standa að verkefninu og frumprófanir fóru fram á dögunum.
„Verkefnið snýst um að búa til sýndarveruleika þar sem fólk getur æft sig í að takast á við aðstæður, sem kunna kannski að virðast óhugnanlegar og svona framandi. Og í sýndarveruleika getur fólk æft sig aftur og aftur og aftur, þar til það öðlast kjarkinn til að stíga þessi skref í veruleikanum,” sagði Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri hjá Þroskahjálp í viðtali í Kastljósi.
Sýndarveruleiki fyrir fjóra mismunandi þætti hefur verið útbúinn í þessu skyni. Einn þeirra gefur mynd af því hvernig er að ganga til kosninga, í öðrum er hægt er að prófa að taka strætó, sá þriðji sýnir aðkomu í sumarbúðir í Reykjadal og sá fjórði gefur mynd af því hvernig er að koma í Bjarkarhlíð, þar sem hægt er að tilkynna um ofbeldi og ræða við sérfræðinga á því sviði.
„Það er sorgleg staðreynd að fatlað fólk er líklegra til þess að verða fyrir ofbeldi en ólíklegra til þess að fá aðstoð til þess að vinna úr því,” segir Anna Lára.
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir fjölmiðlakona, sem við þekkjum úr þáttunum Með okkar augum, var sú fyrsta sem fékk að prófa sýndarveruleikann.
„Þetta er skrýtið,” segir Steinunn aðspurð. „Þetta er eins og að vera á allt öðrum stað en maður ætti að vera,” bætir hún við. Eins og sjá má í spilaranum hér að ofan finnst Steinunni sem hún sé stödd í Ráðhúsi Reykjavíkur að kjósa til alþingiskosninga. Hún segist handviss um að búnaðurinn hjálpi fólki, sem ekki hefur áður gengið til kosninga, við að gera nákvæmlega það.
Piotr Łój er hönnuður sýndarveruleikans. Hann hefur áður hannað sams konar sýndarveruleika þar sem notendum gafst kostur á að sækja eldgosið í Geldingadölum heim og var það einmitt gert fyrir þá sem ekki gátu, af einhverjum ástæðum, gengið að gosstöðvunum. Það varð enda kveikjan að verkefninu með Þroskahjálp.
„Ég legg áherslu á að hafa þetta sem allra þægilegast og öruggast. Því reynum við að taka upp margar útgáfur af hverju myndskeiði til að valda ekki sjóveikitilfinningu og forðast áhrif mjög skærra lita,” segir Piotr í viðtali við Kastljós og bætir við að það sé svo í höndum félagsráðgjafa að velja útgáfu sem hentar hverjum og einum notanda.