Snemma í febrúar opnaðu fjórar myndlistarsýningar í Listasafni Árnesinga sem allar snúa að einhvers konar kerfum, hvort sem er eðlisfræðilegum eða samfélagslegum.
Kristín Scheving safnstjóri sagði í Kastljósi að sýningarnar ættu allar eins konar leikgleði sameiginlega, tilraunakennd einkenni þær og geri þær einstaklega skemmtilegar.
Magnús Helgason myndlistarmaður stendur fyrir sýningunni RÓLON þar sem hann leikur sér með hringferla, það hvernig hlutir snúast í hring eftir hring. Hann notar til þess rafmótora og segulstál meðal annars og segir að verkin séu öll eins konar „fling”, stutt verk sem vekja upp lítinn en skammvinnan ástarneista milli þess sem skoðar verkin og þess sem fyrir augu ber.
Þórdís Erla Zoega myndlistarmaður stendur fyrir sýningunni Hringrás, þar sem hún hengir upp í loft marglita en gegnsæja hringi úr plexígleri sem síðan snúast eins og diskókúlur. Þannig líkir hún eftir sólarupprásinni að eigin sögn og verkið endurkastar ljósi um allt rýmið eins og um vita sé að ræða. Áður fyrr fóru menn á fætur við sólarupprás og hölluðu sér við sólarlag, segir Þórdís, en í dag hefur bjarminn frá snjalltækjunum tekið við þessu hlutverki og ruglað í hormónastarfsemi mannsins. Þórdís segir að það hafi verið henni hugleikið við uppsetningu verksins.
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir myndlistarmaður setti upp sýninguna Þú ert kveikjan, þar sem safngestum gefst kostur á að setja sinn svip á verkið með gagnvirkum hætti. Stórir rammar hanga úr loftinu rétt yfir gólffletinum og þeim má snúa um sjálfa sig. Á víð og dreif um gólfið eru svo boltar sem rekast utan í rammanna og búa þannig sífellt til nýtt og nýtt listaverk. Ingunn Fjóla segir að þegar sýningin opnaði hafi verið mikið um börn sem léku sér að boltunum sem gerði sýninguna mjög dýnamíska og skemmtilega.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir myndlistarmaður stendur svo fyrir sýningunni Buxnadragt, sem er ekki skúlptúrísk á sama hátt og hinar þrjár. Hún hefur málað mýmörg verk af konum í buxnadragt, sem hún segist hafa fengið svolítið á heilann. Sýningin tengist, að hennar sögn, valdabrölti kvenna í heimi jakkafata og talar þannig inn í þau samfélagslegu viðmið sem til staðar eru og hvernig konur hafa þurft að aðlaga sig að þeim.