Dómsmálaráðherra segir að fólki frá Úkraínu standi allar dyr opnar hér á landi og um helgina hafi þegar komið einhver fjöldi sem hér eigi ættingja og vini. Til skoðunar er að senda búnað og mannskap til aðstoðar til ríkja sem landamæri eiga að Úkraínu.
„Það er þegar byrjað að skipuleggja heilmikla aðstoð gagnvart þeim löndum, bara til að takast á við vandann og það er margt sem þarf að líta til. Við erum að setja í skoðun allt almannavarnakerfi í tengslum við það. hvaða búnað við getum sent, mögulegan mannskap til að aðstoða þessar þjóðir við að glíma við vandann á staðnum“ segir Jón Gunnarsson.
„Það er þegar farið að bera á því að fólk frá Úkraínu er að koma til landsins. Fólk sem á ættingja hér eða vini sem að sem er þá að koma. Einhverjir komu um helgina þannig, jafnvel einhverjir tugir, ég á reyndar eftir að fá þessar tölur staðfestar og hér eru allar dyr opnar fyrir þessu fólki að sjálfsögðu“ segir Jón Gunnarsson.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Jón úr Morgunútvarpinu á Rás 2 í spilaranum hér að ofan.