Íslendingur í austurhluta Úkraínu segist finna fyrir gjörbreyttri afstöðu til átakanna og forseta landsins, Volodomyr Zelensky. Áður hafi fólkið í austurhlutanum frekar verið á því að leyfa Rússum að taka yfir en hann segist ekki skynja það lengur. 

Karl Þormóðsson, sem  býr ásamt eiginkonu sinni í austurhluta landsins í borginni Zhaporozhye þar sem meirihluti fólks eru Rússar, hafði leitað skjóls í kjallara hússins þegar Morgunútvarpið náði tali af honum í morgun.

„Það eru loftvarnaflautur í gangi núna. Byrjuðu fyrir fimm mínútum síðan. Annars erum við þokkalega í sveit sett hérna, gærdagurinn og nóttinn var mjög róleg hérna,“ segir Karl.

Karl segir lítið hafa verið sprent í borginni þó hefðu einhverjar sprengjur fallið í nágrenni flugvallarins. Hann segir þau lítið geta annað gert en að halda kyrru fyrir. „Það er tómt mál að tala um að reyna að komast héðan í burtu því það er hvergi eldsneyti að fá á leiðinni og enn síður að fá eldsneyti hérna í borginni og ekki ætla ég að labba 1200 kílómetra, það er alveg á kláru.“

Karl telur samstöðuna í Úkraínu vera að aukast, líka í austurhlutanum. „Ég hafði það nú á tilfinningunni í upphafi að hérna í austurhlutanum væri þetta svona frekar á því að leyfa þessu bara að rúlla yfir hérna og að stjórnvöld segðu af sér en mér sýnist samstaðan orðin gríðarlega mikil um allt land hérna núna. Forsetinn var ekki hátt skrifaður hérna fyrir en hann er að nálgast það að vera komin í dýrlingatölu hérna,“ segir Karl.