Jón Ormur Halldórsson sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum segir að stríðið í Úkraínu hafi ekki gengið eins vel og Rússar vonuðu.
„Eiginlega ekki. Það kemur hvort tveggja til að máttur rússneska hersins er eitthvað minni en menn bjuggust við. Hitt er andstaðan sem er harðari en menn reiknuðu með og það skiptir kannski meira máli upp á framtíðina. Stóra spurningin er ekki lengur sú hvort Rússar geti tekið Úkraínu, þeir geta það, en það getur tekið talsverðan tíma. Spurningin er heldur hvort þeir geta haldið henni,“ segir Jón Ormur.
Hann segir að ástæða þess að Pútín fór inn í Úkraínu sé sú að hann telji sér ógnað.
„En það er ekki hernaðarógn sem hann hefur áhuga á heldur er það ógn hugmyndanna, sem getur komið frá Úkraínu, um öðruvísi samfélag en það sem hann hefur byggt upp í Rússlandi.“
Bein hernaðaraðstoð stórhættuleg fyrir alla Evrópu
Það segi jafnframt stóra sögu að Þjóðverjar hafa ákveðið að senda vopn til Úkraínu.
„Þjóðverjar hafa út af sögu sinni forðast það að taka nokkurn tímann mjög harða afstöðu og forðast það mjög sérstaklega gagnvart Rússlandi. Það má heldur ekki gleyma því að það féllu öllu fleiri í Úkraínu en í Rússlandi í síðari heimsstyrjöldinni þannig að ábyrgð Þjóðverja gagnvart Úkraínu er mjög sterk og það ýtti undir þetta. Almennt eru þetta ákveðin vatnaskil að Þýskaland tekur nú fullan þátt í viðbrögðum bandalagsþjóða sinna í Evrópu,“ segir Jón Ormur.
Hann telur ekki rétt að veita beina hernaðaraðstoð í stórum stíl. Það væri hins vegar rétt að styðja andspyrnuöfl.
„En raunveruleg hernaðaraðstoð með ógnunum við Rússa og eldflaugakerfum væri stórhættulegt fyrir frið í allri Evrópu.“
Hvernig gætu málin þróast?
Jón Ormur segir efnahagsþvinganir yfirleitt ekki virka mjög vel nema þær séu mjög strangar. Þær séu orðnar það núna. Þá geti Úkraínudeilan jafnframt haft talsverð áhrif á Kína og stöðu þess í heimsmálunum.
Varðandi þróunina og hvort líklegt sé að Pútín hyggi á fleiri landvinninga ef hann nær markmiðum sínum í Úkraínu, segir Jón Ormur:
„Ég held að hann geti hugsanlega náð þeim markmiðum sínum að veikja úkraínska ríkið og gera það að skelfingarfyrirbæri frekar en því sem hefði getað orðið. En ég held hins vegar að hann hafi bitið of mikið og hann ráði ekki við þetta. Ég held að valdakerfið, sem Pútín er toppurinn á í Rússlandi, skjálfi og muni skjálfa ennþá meira út af þessu máli. Það sé hugsanlegt að þetta sé upphafið á endinum á einræðisferli Pútins,“ segir Jón Ormur Halldórsson, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum.