Hafdís Helga Ólafsdóttir segir málarekstur Lilju Alfreðsdóttur ráðherra gegn sér hafa verið íþyngjandi. Ráðherrann hafi reynt að gera hana tortryggilega. Hún hafi tvívegis þurft að fara í veikindaleyfi vegna málsins. „Varðandi þessi samskipti við Lilju Alfreðsdóttur ráðherra: Hún hefur aldrei á mig yrt í gegnum allt þetta ferli. Hún heilsaði mér ekki einu sinni í réttarsal,“ segir Hafdís Helga.
- 2019: Hafdís Helga Ólafsdóttir, þáverandi skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sótti fyrir tveimur árum um starf ráðuneytisstjóra í mennta-og menningarmálaráðuneytinu. Páls Magnússon, þá bæjarritari Kópavogsbæjar, var ráðinn.
- maí 2020: Hafdís kærði málið til kærunefndar janfnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu að Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefði brotið jafnréttislög.
- mars 2021: Við það vildi Lilja ekki una og fór með máli fyrir Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómurinn hafnaði öllum málsástæðum ráðherrans og ríkinu var gert að greiða 4,5 milljónir í málskostnað. Dómurinn var kveðinn upp 5. mars í fyrra og sama dag greindi ráðherra frá því að málinu yrði áfrýjað.
- 2022: Til stóð að málflutningur yrði fyrir Landsrétti á mánudag en í gær var greint frá því á vef mennta- og barnamálaráðuneytis að fallið hefði verið frá málarekstri á hendur Hafdísi Helgu og að sátt hefði verið gerð um miskabætur.
„Ég get auðvitað ekkert annað sagt en að ég fagna því að þessi dagur sé loksins kominn, að það sé komin þessi niðurstaða og ég sé búin að endurheimta líf mitt og hversdagsleikann aftur og er mjög fegin,“ segir Hafdís Helga í samtali við Fréttastofu RÚV í dag.
Fréttastofa hefur í dag og í gær óskað eftir viðtali við Lilju um málið en án árangurs. Í textaskilaboðum aðstoðarmanns Lilju segir:
„Núverandi mennta-og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason og fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir voru sammála um að taka sáttarboði Hafdísar Helgu Ólafsdóttur. Þau fagna að málinu sé þar með lokið.“
Þegar spurt var hvort Lilja hygðist ekki veita viðtal um málið barst þetta svar:
„Hún hefur ekkert við málið að bæta að sinni.“
Í sáttinni felst að Hafdís fær 2,3 milljónir króna í miskabætur auk málskostnaðar. Hafdís segir að miskinn sem hún hafi orðið fyrir margvíslegur.
„Mér hefur fundist það hafa verið vont á köflum hvernig hún hefur gert mig tortryggilega, kallað mig ýmsum nöfnum eins og yfirmann ríkislögmanns og þess vegna sé þetta mál svo sérstakt. Og jafnvel sagt að hún sé líka einstaklingur og þegar á hana sé ráðist þurfi hún að verja sig. Nú, ég hef bara einfaldlega þurft að segja mig frá verkefnum í minni vinnu, halda mig til hlés og vera bara andlitslausi embættismaðurinn. Ég fór í tvö stutt veikindaleyfi á síðasta ári og hef bara þurft að leita mér aðstoðar til þess að halda haus í gegnum þetta. Svo finnst mér kannski ekki síst, þar sem ég tel mig eiga ágætis feril bæði innan stjórnsýslunnar og sem háskólakennari, að mér finnst það mér ekkert sérstaklega mér til framdráttar að þegar nafnið mitt er gúgglað birtast myndir af Lilju Alfreðsdóttur,“ segir Hafdís.
Óraði ekki fyrir málarekstrinum
Hún segir að sig hafi ekki órað fyrir því þegar hún sótti um starf ráðuneytisstjóra að þetta yrði eftirleikurinn.
„Nei. Ég kæri þessa niðurstöðu og þar er ég að leita réttar míns eftir lögboðnum leiðum. Það er einfaldlega fordæmalaust að ráðherra hafi valið að stefna. Það er í fyrsta skipti þegar um hefur verið að ræða brot á jafnréttislögum. Það hefur alltaf verið kærandi sem hefur farið áfram í mál ef svo hefur verið,“ segir Hafdís. Hún bendir á að þegar málið kom upp hafi lögin verið þannig að ráðherra hafi ekki átt annan kost, til þess að freista þess að fá úrskurði kærunefndar hnekkt, en að höfða mál. Lögum hafi hins vegar verið breytt og sú breyting tekið gildi þegar málflutningur fór fram í héraði og dómur kveðinn upp.
„Þetta var svona kannski með algjörum ólíkindum. En þetta varð sem sagt að gerast svona. En þá stoppar maður við aftur: af hverju þá að áfrýja málinu og taka sér fjórar klukkustundir [til að ákveða það] frá því að mjög afdráttarlaus og sterkur dómur féll sem staðfestir niðurstöðu kærunefndar,“ segir Hafdís.
Verið dregin inn í málið sem andlit kærunefndar
Hafdís fagnar því að lögum hafi breytt. „Þetta mun alla vega ekki koma fyrir aftur, meðan þessi lög eru í gildi, gagnvart einstaklingi að hann þurfi einn að standa í þessu að verjast. Vegna þess að þetta mál snýst ekkert um mig. Þetta snýst um að ógilda stjórnvaldsúrskurð. Ég hef hins vegar bara verið dregin inn sem eitthvert andlit þessarar kærunefndar. Miski minn felst að hluta mjög í því,“ segir Hafdís.
Hafdís segir að Lilja hafi aldrei á hana yrt eftir að málið hófst.
„Varðandi þessi samskipti við Lilju Alfreðsdóttur ráðherra: Hún hefur aldrei á mig yrt í gegnum allt þetta ferli. Hún heilsaði mér ekki einu sinni í réttarsal. Það hefur aldrei verið gerð tilraun til þess að leita sátta af nokkru tagi, hvort sem það var nú grundvöllur fyrir því eða ekki,“ segir Hafdís.