Hamarshöllin, íþróttahúsið í Hveragerði, sprakk á sjöunda tímanum í morgun þegar þrír starfsmenn bæjarins voru þar við. Gat hafði komið á höllina í illviðrinu og voru starfsmenn mættir á staðinn til að meta stöðuna, þegar íþróttahúsið, sem var loftborið eða uppblásið, sprakk. Friðrik Sigurbjörnsson, forseti bæjarstjórnar segir að tjónið hlaupi á hátt í hundrað milljónum króna.
„Það er auðvitað búið að vera bálhvasst hérna í morgun. Það var þannig að það sprakk Hamarshöllin hjá okkur í morgun þegar starfsmaður var þar við,“ segir Friðrik.
Þrír bæjarstarfsmenn voru á svæðinu snemma í morgun og stóð einn þeirra við höllina að meta skemmdir þegar hann kom auga á gat.
„Hann ætlaði að fara að laga höllina eða reyna það, þegar hann uppgötvaði gat. Þá bara bókstaflega sprakk Hamarshöllin í andlitið á honum. En það var mikil mildi að enginn slasaðist,“ segir Friðrik.
Enginn var inni í höllinni þegar hún sprakk. Dúkur sem myndaði veggi og loft liggur nú yfir helmingi vallarins, þar að segja yfir gervigrasvellinum en hann fauk af hinum helmingnum, þar sem var íþróttagólf.
„Það eru fimleikamunir, boltar og fleira sem hafa fokið á víð og dreif og upp í dal hjá okkur,“ segir Friðrik.
Tjónið er töluvert. „Það er alveg augljóst að það verður ekki reynt að bjarga neinu fyrr en um hádegi þegar það fer að lægja,“ segir Friðrik. Hann telur að tjónið hlaupi á tugum milljóna króna, jafnvel allt að hundrað milljónum.
Aðsend – Friðrik Sigurbjörnsson
Aðsend – Friðrik Sigurbjörnsson