Úkraínudeilan hefur reynt á ráðamenn Evrópu og Bandaríkjanna. Sumir þeirra hafa nýtt stöðuna til að gera sig gildandi, til að styrkja stöðu sína út á við, en líka heima fyrir.
Þá hafa þeir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og Joe Biden, verið afar yfirlýsingaglaðir um áform Rússa, sem er nýlunda.
„Þetta er ný strategía sem ráðamenn í Washington og London beita að deila upplýsingum frá leyniþjónustum ríkja sinna með almenningi um leið í raun og hlutirnir eru að gerast,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
„Þeir virðast með þessu vera að reyna að ná frumvæði í umræðunni og leyfa þannig ekki upplýsingum frá rússneskum stjórnvöldum að ráða för í fjölmiðlaumfjölluninni hér í vestur Evrópu. En þeir eru líka með þessu að reyna að hafa áhrif á gang mála við landamæri Úkraínu og Rússlands og koma í veg fyrir innrás. Og þeir eru líka að reyna, með því að gefa upp ákveðnar dagsetningar, sem þeir segjast hafa heimildir fyrir að ráðist verði inn, að koma í veg fyrir innrás. Kannski hafa þeir frestað henni um einhverja daga með þessu. Þeir eru að reyna að koma í veg fyrir innrás, en þeir eru líka að reyna að styrkja stöðu sína. Bæði heima fyrir og í alþjóðakerfinu.“
Gott dæmi um það sé Emmanuel Macron, forseti Frakklands. Hann hefur reynt að miðla málum í Úkraínudeilunni, einungis um tveimur mánuðum fyrir forsetakosningar í Frakklandi þar sem Macron á undir högg að sækja. Baldur segir nokkrar fleiri ástæður fyrir því að Macron tekur sér þetta hlutverk.
„Hann langar augljóslega að taka við hlutverki Merkel sem helsta leiðtoga í Vestur-Evrópu sem hefur besta talsambandið við ráðamenn í Kreml,“ segir Baldur.
Þá megi einnig nefna að Frakkland er nú í forsæti Evrópusambandsins sem róterar á milli ríkjanna á sex mánaða fresti. Frakklandsforseti er leiðtogi leiðtogaráðs Evrópusambandsins og getur þannig talað í nafni Evrópusambandsríkja.
„Í fjórða lagi hefur Frökkum löngum fundist Bandaríkjamenn og Bretar vera of valdamiklir innan NATO. Þeir hafa alla tíð haft ákveðna sérstöðu innan bandalagsins og vilja láta meira til sín taka og að bandalagið fari eftir þeirra óskum og vilja og líklega er Macron að styrkja stöðu sína hvað þetta varðar,“ segir Baldur.