Smíða þyrfti ný, stærri og dýrari fiskiskip sem knúin yrðu dýrari orkugjöfum en olíu, svo unnt væri að fara í orkuskipti í sjávarútvegi. Sérfræðingur í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í Sjávarútvegi segir að ef ráðist verður strax í orkuskiptin án ríkisaðstoðar slái það sjávarútvegsfyrirtæki út úr samkeppni á alþjóðlegum fiskmörkuðum.
Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að hér verði fullum orkuskiptum náð eigi síðar en árið 2040. Ísland verði þannig jarðefnaeldsneytislaust fyrst ríkja. Rafeldsneytið Metanól hefur verið nefnt sem mögulegur orkugjafi og Carbon Recycling á Reykjanesskaga er reiðubúið í slíka framleiðslu en í hana þarf mikla orku.
Enginn einn valkostur
Þær rannsóknir sem við höfum skoðað og látið gera fyrir okkur, þær gefa til kynna að það er enginn einn augljós valkostur sem getur tekið við af jarðefnaeldsneyti,“ segir Hildur Hauksdóttir, sérfræðingum í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Danska sjóflutningafyrirtækið Maersk, sem er stærsta sinnar tegundar í heiminum, vinnur nú að því að þróa skip sem ganga fyrir metanóli. Þá er þróunarverkefni að hefjast í Noregi við að nýta ammóníak sem orkugjafa skipa.
Óvissa einkenni umræðuna
„Það er auðvitað öll umræða um orkuskipti þannig að það er óvissa. Óvissa t.d. um tækni, öryggismál, innviði og auðvitað framboð á orkunni,“ segir Hildur.
Meiri óvissa um orkuþörf í fiskveiðitúr en vöruflutningum
Smíðaðar hafa verið vélar sem ganga fyrir metanóli. En Hildur segir mikinn mun á því að nota metanól á flutningsskip heldur en fiskiskip sem eru oft lengi úti á veiðum.
„Skipin þyrftu að stækka. Orkan er auðvitað þannig, eins og metanól, það þarf tvöfalt meira magn af metanóli til að uppfylla sömu orkuþörf og þú notar af jarðefnaeldsneytinu. Þannig að skipin munu þurfa að stækka og það er auðvitað erfitt fyrir sjávarútveginn og fiskiskipin, af því að kerfið byggist mjög mikið á stærð fiskiskipa,“ segir Hildur.
SFS lét vinna úttekt á kostnaði við orkuskipti í sjávarútvegi.
„Kostnaður gæti verið 50-100% meiri heldur en á hefðbundnu fiskiskipi. Að auki er auðvitað orkan dýrari. Það þarf að huga að samkeppnishæfni. En hvað fjárfestinguna varðar myndi þetta, eins og staðan er í dag, slá okkur algjörlega út úr samkeppninni,“ segir Hildur.
Hildur bendir á að í Noregi styðji ríkið fyrirtæki fjárhagslega í orkuskiptum.
En er raunhæft að ná orkuskiptum í sjávarútveginn á næstu átján árum?
„Það er stórt verkefni. Ég þori ekki að svara því. En við erum auðvitað með fjölmörg fiskiskip sem þyrfti þá að skipta út. Þau eru með líftíma 30-40 ár eða meira. Þannig að það þarf mikið að gerast,“ segir Hildur.