Læknafélag Íslands hefur gert alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til útlendingalaga þar sem lagt er til að hægt sé að skylda hælisleitendur í læknisskoðun. Steinunn Þórðardóttir, formaður félagsins, segir að ef frumvarpið verði að lögum séu læknar settir í mjög erfiða stöðu og þurfi að velja milli þess að fylgja landslögum eða fara að alþjóðlegum siðareglum lækna.

„Í þessari 19. grein eins og hún er orðuð þá eru lögreglu gefnar mjög ríkulegar heimildir til að skylda fólk í ýmiss inngrip: sýnatökur, líkamsskoðun og fleira. Og eins til að afhenda sjúkraskrárgögn sem eru viðkvæmar trúnaðarupplýsingar. Þetta stangast algerlega á við siðareglur lækna. Þær miðast að því að viðhalda trúnaði læknis og sjúklings,“ segir Steinunn í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2.

„Genfaryfirlýsing alþjóðafélags lækna hljóðar þannig: Læknirinn er bundinn að því að hafa heilsu sjúklinga sinna að leiðarljósi framar öllu öðru. Við veltum fyrir okkur hvernig þetta tvennt getur farið saman og sjáum í rauninni algerlegan ómöguleika þarna. Ef þetta verður að lögum erum við sett í þá stöðu að þurfa að velja milli þess að fara að landslögum eða að alþjóða siðareglum lækna,“ segir Steinunn.

Í athugasemdum Læknafélags Íslands og Félags læknanema segir:

Sé útlendingur sem vísa á úr landi tilneyddur til að sæta slíkri skoðun, má gefa sér að viðkomandi sé andvígur því að vera vísað úr landi. Oft hafa einstaklingar í slíkri stöðu flókin vandamál, gjarnan á grunni áfallastreitu, og verið er að vísa þeim aftur í aðstæður þar sem þau telja lífi sínu og heilsu ógnað. Með því að gera ofangreint vottorð þyrfti læknir að telja að slík brottvísun úr landi sé viðkomandi fyrir bestu, sbr. ofangreindar siðareglur. Virðing fyrir manneskjunni og gagnkvæmt traust er grundvöllur læknisstarfsins. Framkvæmd sem þessi vinnur gegn hagsmunum og mannréttindum sjúklinga, og teljum við hana stangast á við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta er náttúrulega hópur sem við vitum að, innan hans eru mjög margir í gríðarlega viðkvæmri stöðu, hafa upplifað mjög erfiða hluti í aðdraganda komu hingað til lands. Þá sjáum við líka heldur ekki að það sé auðvelt fyrir lækni að votta það að einhver sé fær um að fara til baka, kannski í mjög ótryggar aðstæður,“ segir Steinunn.

Læknar birta athugasemdir sínar á heimasíðu Læknafélagsins.