„Kvenfrelsi er í dag, líkt og fyrr, veikasti hlekkur mannfrelsis. Það er því hagur okkar kvenna að sjá til þess að vagga hins eiginlega frelsis, sjálf náttúran, sé varðveitt,“ segir Dalrún Kaldakvís Eygerðardóttir pistlahöfundur Víðsjár.
Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir skrifar:
Hin djúpa og höfga heiðakyrrð
í hörpuna þúsund raddir fær.
Í öræfafriði fyrst ég nam,
hve fagurt í lotning hjartað slær,
og sál mín heyrandi heyrði þar,
og hljómkviðan Eilífð barst mér nær.
Svo orti íslensk skáldkona sem fædd var undir lok 19. aldar, Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum; ljóðskáldið sem nam hljómkviðu eilífrar íslenskrar víðáttu. Orð skáldkonunnar um heiðakyrrðina og öræfafriðinn, marka upphaf þessarar frásagnar minnar um viðhorf fyrri alda kvenna til ósnortinnar náttúru Íslands; heiðarlandanna og öræfanna.
Um aldir hafa íslenskar konur ferðast um víðernin sem tengja byggðir landsins; óbyggðirnar. En fáar konur hafa gert firnindin að heimili sínu. Í frásögn þessari eru dregnar upp myndir úr lífi tveggja kvenna sem bjuggu stóran hluta ævi sinnar á jaðri mannabyggða, á heiðum og öræfum. Markmið umfjöllunarinnar er að minna á þá staðreynd að íslensk náttúra hefur í gegnum aldirnar gefið íslenskum konum færi á frelsi sem fæst ekki nema í þeim faðmi náttúrunnar – frelsi sem kostar þó fórnir. Búseta á heiðum og öræfum býður upp á einstaklingsfrelsi en um leið frelsissviptingu, því sá faðmur fjarri öðrum, er í senn paradís og vægðarlaus veruleiki.
Í þessari tveggja kvenna sýn er fyrst fjallað um útilegukonuna Höllu Jónsdóttur sem fædd var árið 1720, og bjó á fjöllum og fjarri mannabyggðum í rúma fjóra áratugi með eiginmanni sínum Eyvindi Jónssyni, sem gekk undir nafninu Fjalla-Eyvindur. Þegar litið er til fyrri alda kvenna, þá státar Halla af því að hafa haft víðförulasta búsetu í víðernum Íslands – og hefði af þeim sökum átt að kallast Fjalla-Halla.
Töluvert hefur verið fjallað um útileguhjónin Höllu og Eyvind í íslenskum bókmenntum, og hér er litið til þess efnis. Margt í ævi Höllu og Eyvindar er á huldu. Strjálar heimildir, munnmælasögur og rituð gögn, gefa vissulega innsýn í ævi þeirra hjóna en heimildirnar eru gjarnan missaga. Saga Höllu og Eyvindar hefst þegar Eyvindur flýr undan armi laganna í kjölfar þess að hann er sakaður um stuld í heimasýslu sinni Árnessýslunni. Ekki er staðfest hvernig fundum þeirra Höllu og Eyvindar bar saman, en heimildir gefa sterklega til kynna að leiðir þeirra hafi fyrst legið saman í Aðalvík á Hornströndum þar sem Halla bjó búi sínu. Halla, sem var ættuð úr Súgandafirði, var skapmikil og ákveðin kona sem var dökk yfirlitum og snör í snúningum. Þegar Eyvindur kemur til sögunnar býr Halla að öllum líkindum í ekkjudómi og trúlega með barn eða börn á sínu framfæri. Á þessum tíma voru eyðijarðir víða nyrst á Vestfjarðarkjálkanum. Þetta var einangruð byggð sem skapaði vissar kjöraðstæður fyrir utangarðsfólk, svo sem sakamenn sem gátu sest að á eyðijörðum og reynt að draga fram lífið með selveiðum – á öld sem einkenndist af hafísárum, drepsóttum og feikilegri hungursneyð, þar sem stjórnarhættir Dana og verslunareinokun bætti ekki úr skák. Talið er að Eyvindur hafi ráðist sem vinnumaður til Höllu og voru þau síðar gefin saman. Halla og Eyvindur hurfu síðar frá Aðalvík og hröktust um nærliggjandi byggðarlög með börn sín.
Síðan verða skil í sögu þeirra hjóna þegar þau leggjast út og skilja við börn sín tilneydd, utan elstu dótturina sem þau tóku með sér. Ástæðurnar að baki því að Halla og Eyvindur lögðust út liggja ekki fyrir, en talið er að þau hafi verið bendluð við sauðaþjófnað og flúið af þeim sökum, vegna ómanneskjulegra refsinga sem lágu við slíku. Það voru þó fyrst og fremst harðindi þessara ára sem hröktu þau á þessa lífsbraut. Hungurvofan leiddi til þess að þeir örfáu úr röðum kotbænda og vinnufólks sem kjark höfðu til, yfirgáfu samfélag þess tíma sem bauð af sér líf í djöfuldómi eða dauða. Útilegumennska var því örþrifaráð þeirra sem hugsuðu út fyrir torfkofann. Næstu áratugina áttu Halla og Eyvindur eftir að dvelja fjarri mannabyggðum, til að mynda á Hveravöllum, Arnarvatnsheiði, við Hofsjökul, enn á ný á Ströndunum, Sprengisandi, norðan Vatnajökuls í Hvannalindum, og víðar um land. Þar lifðu þau skinnklædd á þeim landsins gæðum sem villt náttúra gaf af sér, og nýttu sér einnig sauðfé og hesta sem rak á fjörur þeirra – stundum í samfloti með öðrum útilegumönnum. Tóftir, hellisskútar og byrgi í klettasprungum, eru nú minnisvarðar um búsetu þeirra útileguhjóna víða um land. Mannvistarleifar sem vitna um hugvitssemi og verkvit þeirra. Sérstaða húsagerðar þeirra var augljós og sér á báti með hliðsjón af því að gera sér hlutina auðvelda. En skýrasta dæmi þess er þegar þau byggðu ofan á lindum og höfðu því aðgang að vatni innanstokks.
Á þeim ríflega 40 árum sem Halla og Eyvindur lágu úti var Eyvindur handsamaður þrisvar sinnum og Halla oftar, en alltaf tókst þeim að flýja aftur á fund hvors annars í faðm fjallanna. Heimildir um öræfahjónin Höllu og Eyvind, hvort heldur þær eru sögulegar eða skáldaðar, lýsa gjarnan Eyvindi sem fjallkóngi, ljósum yfirlitum en Höllu sem einskonar fylgismey hans; konu dökkri yfirlitum sem fylgdi honum á ferðum hans um óbyggðirnar því hún gat ekki án hans verið. Slík sýn á Höllu kemur ekki á óvart, því ásetningur kvenna í sögunni er gjarnan sagður vera af rómantískum toga. Víst er að Halla og Eyvindur unnu hvort öðru, en sagan sýnir að Halla unni einnig óbyggðunum. Líf hennar eitt og sér, sem og tiltækar heimildir um það, sýna að Halla hafði annarskonar athafna- og ferðafrelsi en samferðakonur hennar nutu. Jafnframt sýna heimildir að hún sinnti á sinn hátt hefðbundnu kvenhlutverki þó í útlegð væri. Halla sinnti heimilisstörfum þar sem hjónin dvöldu hverju sinni, en sögur sýna að verkaskipting kynjanna viðhélst jafnvel í óbyggðunum, svo sem kemur fram í útilegumannasögunum. Eitt sinn var Halla handtekin þegar hún er í miðjum klíðum að sinna heimilisverkunum – og tóku vitnin fram hve einstaklega snyrtilegt var í húsakynnum öræfahúsfreyjunnar. Önnur lýsing sem gefur innsýn í störf Höllu er höfð eftir smala sem sá hana tilsýndar mjólka ær, í mestu makindum. Ennfremur má nefna lista af innanstokksmunum Höllu og Eyvindar úr koti sem þau byggðu við jökulrönd, koti sem þau þurftu að flýja er flokkur bænda sótti að þeim. Á listanum kemur fram að Halla átti fáein tól sem hún nýtti við heimilisverkin, svo sem mjólkurtrog, tvo snældusnúða og bandhnykla. Erfitt er að gera sér í hugarlund aðstæður kvenna á borð við Höllu, sem hélt farandheimili á flæmingi sínum um öræfi og eyðibyggðir samhliða því sem hún fæddi og ól upp börn þeirra hjóna, stundum við hörmungaraðstæður sem skapast geta í óbyggðum. Hvernig sefar móðir barn sitt upp á öræfum í nístingskulda og stormi? Hvernig kveður móðir nýlátið barn sitt við jökulskjöld?
Höllu var lýst sem kaldranalegri konu; einn heimildarmaður sagði að hún væri harðlynd kona en að hann Eyvindur væri bljúgur maður. Ætla má að Halla hafi haft viss völd í sambandinu, til að mynda með hliðsjón af ólíkri skapgerð þeirra hjóna og aldursmunar, en hún var nokkrum árum eldri en Eyvindur. Halla var einstaklega áræðin kona líkt og kom fram í frásögnum af því þegar hún var handsömuð; hve þögul og varfærin í orðum hún var í varðhaldinu, svo hún myndi ekki upplýsa neitt um lifnaðarhætti þeirra hjóna. Auk þess sýndu þær sagnir að Halla bjó yfir kænsku sem hún nýtti til að sleppa úr varðhaldi á vit víðernanna – sinna náttúrulegu heimkynna. Ein sagan segir að Halla hafi eitt sinn í varðhaldi sem gömul kona, setið undir bæjarvegg í fögru veðri og sagt: „að fagurt væri á fjöllunum núna.“ Næsta dag var hún horfin. Áreiðanlegar heimildir eru fyrir því að Halla og Eyvindur hafi snúið aftur í gamla eyðikotið sitt í Jökulfjörðum til dvalar á síðustu æviárum sínum. Sögur herma að Eyvindur hafi látist á undan Höllu og verið grafinn í túninu, þvert á geð Höllu. Halla harmaði að Eyvindur fengi ekki að liggja í vígðri mold í kirkjugarðinum. Framvegis þá var vani útlagans Höllu þegar messað var, að standa fyrir utan kirkjudyrnar og heyra þar á messuna, því hún vildi ekki ganga inn í kirkjuna. Með því móti mótmælti hún því að Eyvindur væri jarðaður utangarðs. Fjalla-Halla var útlagi allt til hins síðasta, og sagan sýnir að hún bar eldheita ást til hálendisins og öræfanna þar sem hún naut frelsis frá kvöðum samfélagsins: fagurt er á fjöllum.
Hér er komið að skilum í frásögninni því nú verður haldið til fundar við 20. aldar heiðarkonu. Kona sú var skírð eftir eyju einni í Breiðafirði sem var ætíð blómum vaxin á sumrin; nafn hennar var Blómey Stefánsdóttir, og hún var fædd árið 1914. Blómey var fædd á Seyðisfirði en ólst að mestu upp á Reyðarfirði, uns hún hleypti heimdraganum ung að aldri og fluttist á sveitabæinn Aðalból í Hrafnkelsdal, um 500 metra fyrir ofan sjávarmál við anddyri öræfanna. Blómey sagði síðar að þar hafi henni liðið best á ævi sinni, Blómey sagði: „Þar blasa endalaus ósnortin víðerni við með jöklasýn í fjarska en heiðum, vötnum og hreindýrahjörðum nær. Það er varla hægt að hugsa sér neitt fallegra en hreindýr sem stendur uppi á hæð með Snæfell í baksýn og reisir myndarleg horn sín mót himni. Það er tákn máttar og dýrðar og slík sýn efldi í mér þrána eftir hinu fullkomna, ótakmarkaða frelsi.“
Blómey var snemmhendis meðvituð um kúgun feðraveldisins. Hún lýsti eitt sinn samræðum sem hún og vinkonur hennar áttu um framtíðina, þegar þær voru ungar konur. Hún sagði við vinkonur sínar að hana dreymdi um að verða „piparmey, ein á eyju, fjarri öllum karlmönnum.“ Vinkonur hennar tóku undir þennan draum hennar, því þeim líkt og henni fannst flestir karlmenn vera „stórbokkar, frekjuhundar og drullusokkar,“ sagði Blómey. Örlög Blómeyjar áttu þó eftir að verða önnur. Því einhleyp móðir síðar á lífsleiðinni kynntist hún karli með ofsaskap, sem hún segir að hafi á sinn hátt skipað henni að vera eiginkona sín: „Þegar ég játaðist honum út yfir gröf og dauða vissi ég að þannig yrði það af minni hálfu og yrði aldrei aftur tekið. Og þannig var það. Það var dauðinn sem aðskildi okkur,“ sagði Blómey. Maðurinn sem Blómey kynntist var Óskar Magnússon sem síðar var þekktur sem spámaðurinn á fjallinu, sem á gamals aldri reisti lítinn torfbæ á Hellisheiði, í Flengingarbrekku. Það gerði Óskar í kjölfar þess að hann og Blómey urðu að hverfa frá heimili sínu í Blesugrófinni þegar Reykjanesbraut var lögð. Óskar sagði að þau hefðu flúið á heiðina og það gerðu þau árið 1973 og bjuggu í heiðarkotinu við afar slæman kost í níu ár.
Það var síðan löngu síðar, einn kaldan haustdag árið 1992, að fjölmiðlamaðurinn Ómar Ragnarsson var á ferðinni sem oftar, og rekst þá á Óskar Magnússon sem þá var að hjóla í átt að gamla heiðarbýlinu sínu í hvassviðri – en á þeim tíma voru hjónin flutt aftur í bæinn en Óskar dvaldi endrum og sinnum einn í kotinu. Ómar Ragnarsson bauð Óskari far og tók hann síðan tali – og þá fékk Ómar forsmekkinn af ofsareiði og gífurlegum trúarhita Óskars, sem róaðist þó er leið á spjall þeirra. Ómar upplifði Óskar sem einskonar Bjart í Sumarhúsum, þar sem hann heyrði á ræðu Óskars um paradís hans á heiðinni. Paradís með tveimur burstum, frumstæðum kálgarði og geitakofa – og klettavegg sem gnægði yfir sælureitinn. Í kjölfar þessa fundar ákvað Ómar að gera sjónvarpsþátt um spámanninn á fjallinu, en Óskar lést stuttu síðar. Það varð til þess að Ómar lagði leið sína til ekkjunnar Blómeyjar sem þá dvaldi á Hrafnistu. Viðtöl Ómars við Blómeyju kölluðu fram aðra mynd af Óskari og af heiðardvöl hjónanna. Viðtölin eru einstakar heimildir um heiðardvöl konu út frá sjónarhorni konu. Frásögn Blómeyjar leiddi í ljós að hún þurfti öll sambúðarárin sín 54 með Óskari að þola andlegt ofbeldi. Óskar var haldinn mikilli kvenfyrirlitningu og vitnaði sér til halds og trausts í Biblíuna, líkt og gjarnt er þegar rökin skortir. Óskar var einkar afbrýðissamur maður og hann einangraði Blómeyju frá mannlífinu. Hann aðskildi Blómeyju meira að segja frá frumburði sínum, dóttur sem hún átti með öðrum manni. En Blómey og Óskar áttu svo síðar eftir að eignast son, og þola þann harm að missa hann.
Heiðarbýlið var sumsé paradís Óskars, en um leið fangelsi Blómeyjar þegar hún 59 ára gömul neyddist til að flytja með honum á heiðina og búa við gífurlega fátækt í ríflega 400 metra hæð yfir sjó. Blómey sagði: „Það var ömurlegt að vera í þessum bæ öll þessi ár, hvern einasta dag. Það gustaði oft um fellið og hellirigndi og á veturna voru oft svo mikil snjóþyngsli að það kostaði mokstur klukkustundum saman á hverjum degi að komast upp úr fönninni... Vatnið af klettinum hripaði niður í jörðina og kom síðan í lækjum upp um gólfin í bænum,“ sagði Blómey um dvölina í saggaþrungnu kotinu í viðtali þeirra Ómars. Saga Blómeyjar sýnir hvernig karl gat notfært sér náttúruna til að einangra konu, en saga hennar sýnir einnig hvernig náttúran er engu að síður uppspretta frelsis. Blómey var í eðli sínu heiðarkona, sem áður segir. Heiðarbýlið var vissulega veldi Óskars og prísund Blómeyjar – en sjálf heiðin var ríki Blómeyjar. Í viðtalinu við Ómar lýsti Blómey frelsi sínu á heiðinni sem hún fékk notið í fjarveru Óskars. Hér í lok umfjöllunar minnar um Blómeyju les ég upp undurfögur orð hennar um Hellisheiðina og frelsið sem þar gat ríkt. Þegar Ómar spurði Blómeyju hvort heiðin hefði eftir allt saman verið helvíti en ekki himnaríki í augum hennar, þá svaraði Blómey:
„Það var yndislegt uppi á heiðinni en það var ömurlegt inni í bænum. Ef veðrið var skaplegt þá flúði ég úr bænum um leið og Óskar var farinn í vinnuna. Á góðum dögum undi ég allan daginn á heiðinni og fór víða um. Það minnti mig á gömlu, góðu dagana á Aðalbóli. Sérstaklega eru mér kærir margir staðir í nánd við gömlu gönguleiðina sem lá um Hellisskarð þar sem vörðurnar standa enn í röð í mosagrænu hrauninu. Ég gat unað þar tímunum saman, gleymt mér og hugsað til æskuáranna þegar ég gat farið fram í heiðanna ró og notið náttúrufegurðar og yndis. Það var svo fallegt, hressandi og gott að ganga upp á góðan útsýnisstað og horfa til norðvesturs yfir Faxaflóa og til austurs yfir Suðurlandsundirlendið í átt til Vestmannaeyja og Eyjafjallajökuls. Ganga síðan ofan í skjólsæla laut eða setjast utan í mjúka mosaþembu undir hraundranga og borða nestið sitt, hlusta á fuglana og horfa á tindrandi tíbrána sem steig upp úr sólvermdu hrauninu. Á heiðinni fann ég frelsið sem ég hef alltaf þráð. Þar gat ég flakkað um eins og mig lysti á meðan dagurinn leið, sólbjartur og heiður. Heiðin og töfrar hennar héldu mér lifandi og leiðindin, sem fylgdu torfbænum, hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar ég flakkaði um þennan fjallageim.“
Hér lýkur frásögn þessari af tveimur markverðum fyrri alda konum er bjuggu á heiðum og öræfum Íslands, og af því frelsi sem þær nutu í óbeislaðri náttúrunni. Þetta endurlit til samspils kvenfrelsis og þess frjálsræðis sem óspillt náttúra veitir, er þarft á tímum þegar sífellt meir er gengið á víðerni og aðra lítt snortna náttúru; á hina eiginlegu frelsislind Íslendinga. Kvenfrelsi er í dag, líkt og fyrr, veikasti hlekkur mannfrelsis. Það er því hagur okkar kvenna að sjá til þess að vagga hins eiginlega frelsis, sjálf náttúran, sé varðveitt.