Vísbendingar eru um að íbúðaþörf hafi aukist frá síðustu greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Aðstoðarforstjóri segir að það líti út fyrir að framboðsþörf verði ekki mætt næstu tvö árin.
Óhætt er að segja að það sé erfitt ástand á húsnæðismarkaði þessi misserin. Íbúðaverð hefur hækkað hratt og nýjasta mannfjöldaspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir umtalsverðri fjölgun íbúa til ársins 2026 umfram fyrri spá.
„Við þurfum að uppfæra okkar íbúðaþarfagreiningu miðað við það. Við erum ekki búin að því. En vísbendingar eru um að það þurfi að byggja 3500-4000 íbúðir á ári en áður höfðum við talað um 3000-3500 íbúðir, þannig þetta er veruleg fjölgun,“ segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS.
Samkvæmt grófri áætlun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru um 5800 íbúðir í byggingu í dag á landinu öllu en samkvæmt greiningunni þyrftu þær að vera um 8000, ef miðað er við að það taki 24 mánuði að byggja. „Ef við segjum að það þurfi að byggja 4000 íbúðir á ári, og ef þessar íbúðir koma inn á markaðinn á næstu tveimur árum, erum við langt langt undir,“ segir Anna.
Lagast þá ástandið ekki fyrr en eftir tvö ár? „Í raun og veru, vegna þess að framboðið mætir ekki þörfinni. Þá er alltaf þessi óstöðugleiki á markaðnum og okkar skilaboð eru ofboðslega skýr. Það þarf að auka framboð.“
Anna fer fyrir átakshópi um stöðuna á húsnæðismarkaði sem þjóðhagsráð ákvað að endurvekja, í honum eru fulltrúar vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og ráðuneyta. „Við þurfum að fara inn í þetta með öðruvísi augum, því síðast þegar við vorum að vinna saman þá var von á miklu framboði íbúða sem að raungerðist, núna er staðan önnur.“