Það er ekki oft sem sá sem bestur er í sinni íþróttagrein í heimi kemur hingað til lands til keppni. Það mun hins vegar gerast í maí. Þá mætir Daniel Ståhl, heims- og Ólympíumeistari í kringlukasti til Íslands og keppir við Guðna Val Guðnason á 75 ára afmælismóti Frjálsíþróttasambands Íslands á Selfossi.
Svíinn Daniel Ståhl hefur verið besti kringlukastari heims undanfarin ár. Eftir að hafa orðið heimsmeistari 2019 í Doha fylgdi hann því eftir með Ólympíugulli í Tókýó síðasta sumar.
Það er enginn tilviljun að hann komi og keppi á afmælismóti Frjálsíþróttasambandsins á Selfossi 28. maí. Þjálfari Ståhl er nefnilega Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson. Vésteinn mun því að sjálfsögðu fylgja Ståhl á mótið og tekur fleira af sínu fólki með á mótið. Meðal annars kringlukastarann Simon Petterson sem vann silfrið á Ólympíuleikunum í Tókýó.
„Krakkarnir sem ég er að þjálfa eru alltaf að spyrja mig út í það hvort það sé ekki séns að fara til Íslands. Auðvitað hef ég verið í sambandi við FRÍ, og aðra aðila í gengum árin, að það gæti orðið að veruleika,“ segir Vésteinn í samtali við RÚV.
„Síðan þegar þetta gerðist allt á Ólympíuleikunum og mjög margir sem fylgdust með því og svona, og svo er afmælisár og þá kom upp þessi hugmynd að halda mót á Selfossi, sem er minn heimabær, og koma með gengið og keppa,“ segir Vésteinn.
„Það var bara já og amen!“
Ståhl og Petterson eru skráðir á að minnsta kosti 30 mót á árinu og því ekki hlaupið að því að fá svona stjörnur til leiks á Íslandi.
„Ég lagði það upp þannig að þetta er greiði við mig. Það var sjálfsagt og þeir koma bara og vilja keppa á Íslandi og eru spenntir fyrir því. Þetta var eiginlega eina helgin sem var laus, þannig að það væri hægt að gera eitthvað. Það er bæði Evrópumót og heimsmeistaramót og ég sagði við þá að þið verðið að gera þetta fyrir mig. Og það var bara já og amen,“ segir Vésteinn.
Guðni Valur Guðnason tvöfaldur Ólympíufari og Íslandsmethafi í kringlukasti fagnar því að fá jafn sterka kringlukastara til keppni við sig á Íslandi.
„Það er bara geggjað, það setur stuðulinn á Íslandi aðeins hærra og er frábært að fá loksins alvöru mót á Íslandi, sem mætti vera miklu oftar,“ segir Guðni Valur.
„Ég vona bara að Guðni verði í formi þannig að hann geti tekið á móti honum,“ gantast Vésteinn um væntanleg einvígi.
„Vonandi setjum við bara einhver góð vallarmet og ég ætla að gera mitt besta til að vinna þá, og sjá hvað gerist,“ segir Guðni Valur.