Frá því að Breiðavíkurmálið kom upp fyrir 15 árum hafa hátt í fjórir milljarðar verið greiddir í sanngirnisbætur til þeirra sem bjuggu við slæman kost og meðferð á vistheimilum á vegum ríkisins og sveitarfélaga. Um 1.200 manns hafa fengið bætur. Peningar duga þó ekki til að græða sár þeirra sem máttu þola illa meðferð í æsku.
Í Speglinum í fyrradag var rætt við Bárð R. Jónsson, sem er einn Breiðavíkurdrengjanna sem stigu fram og sögðu sögu sína fyrir 15 árum. Frá þeim tíma hafa fjöldamörg mál komið fram þar sem upp komst um slæma meðferð á börnum og fullorðnum á seinustu öld.
Yfirleitt dvaldi fólk á þessum heimilum af illri nauðsyn og var komið þar fyrir af ýmsum ástæðum.
Í Speglinum í gær var rætt við Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmann sanngirnisbóta. Hann annaðist bótagreiðslur í Breiðavíkurmálinu og einnig í fleiri sambærilegum málum. Pistilinn má heyra hér að ofan.