Kristrún Guðnadóttir varð í 74. sæti í sprettgöngu kvenna á Vetrarólympíuleikunum í morgun. Hún er ósátt við sjálfa sig eftir daginn.
„Ég er svolítið svekkt, þetta var ekki alveg það sem ég ætlaði mér að gera,“ sagði Kristrún í spjalli við Eddu Sif Pálsdóttur skömmu eftir keppni.
„Ég byrjaði eins og ég ætlaði en svo var ég svolítið þreytt síðasta spölinn. Svo kem ég í mark og sé hvað ég er langt á eftir og þá veit ég ekki alveg hvað ég var að gera. Ég held ég hafi bara ekki verið svona langt á eftir í spretti áður, þetta er svekkjandi,“ bætti hún við.
30 efstu komust áfram í fjórðungsúrslit og hefði Kristrún þurft að ganga 25 sekúndum hraðar til að komast þangað.
„Mér finnst ég gera það sem ég á inni í dag, þannig að það er svekkjandi hvað það er langt á eftir.“
Viðtalið við Kristrúnu má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.