Sóttvarnalæknir segir hægt að fara hraðar í afléttingar vegna faraldursins en áætlun stjórnvalda gerði ráð fyrir. Eins og staðan séum við um tveimur vikum á undan áætlun.

Alls greindust 1.294 kórónuveirusmit í gær, en um 3.500 sýni voru tekin, sem þýðir að ríflega þriðja hvert sýni var jákvætt en þriðjungur var í sóttkví við greiningu. 35 sjúklingar liggja á Landspítala með covid og hefur þeim fjölgað nokkuð síðustu daga. Í gær voru þeir 30 og á laugardag voru þeir 21. Einn er á gjörgæslu og í öndunarvél. Hins vegar fækkar töluvert í eftirliti covid-göngudeildar spítalans. Í gær voru þar ríflega 9.500 í eftirliti, en nú eru þeir rúmlega 7.200.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir fjölda smitaðra haldast svipaðan og færri sýni tekin og það hafi verið vitað. Hlutfall þeirra sem greinast við sýnatöku sé töluvert hærra sem bendi til meiri útbreiðslu og það hafi verið viðbúið í kjölfar afléttinga. 

„Við erum ekki að sjá aukningu á alvarlegum veikindum inni á spítalanum, inni á gjörgæslu sérstaklega. Við erum að sjá töluverðan fjölda leggjast inn á spítalann á hverjum degi en það eru líka margir sem útskrifast og smitin eru orðin svona útbreidd innan Landspítalans. En það er ekkert svo slæmt ástand á heilbrigðisstofnunum eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur Guðnason.

Hann segir að miðað við stöðuna ætti að vera hægt að fara hraðar í afléttingar. 

„Ég held að það sé nokkuð ljóst að við getum farið eitthvað hraðar í það en upphaflega var áætlað og ég vona að það geti gengið eftir. En ég legg hins vegar áherslu á það að við verðum að passa okkur á að fara ekki of hratt og það eru mín skilaboð og verða áfram. En ég held að við getum farið hraðar en við ætluðum.“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund nú áðan að hann sæi fyrir sér að næstu tilslakanir yrðu kynntar eftir ríkisstjórnarfund á föstudag. Þórólfur segir að minnisblað til heilbrigðisráðherra sé í vinnslu. Hann sér einnig fyrir sér að næstu skref, sem til stóð að taka seinna, verði tekin í lok vikunnar. 

„Þannig að ég held, ef við höldum áfram á þessum hraða þá getum við verið allavega tveimur vikum á undan áætlun. Þannig að ég held að það sé bara ánægjulegt, en við þurfum að horfa á stöðuna, sérstaklega innan heilbrigðiskerfisins, hvernig staðan verður,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.