Liðssafnaður Rússa við landamæri Úkraínu nú, hefur allt annan brag og tilgang en hann hafði í fyrravor, segir Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra í Rússlandi og sérfræðingur í alþjóðamálum. Hann hefur samt ekki trú á að Rússar hætti á innrás. Spenna fer vaxandi við landamæri Úkraínu og Rússlands. Um 130 þúsund rússneskir hermenn eru við landamærin og segja má að þeir nánast umkringi landið úr norðri, suðri og austri.
Atlantshafsbandalagið íhugar að senda sérstakar bardagasveitir til suðausturhluta Evrópu og hefur sett hersveitir í viðbragðsstöðu. Framkvæmdastjórinn sagði í gær að þar á bæ væru menn reiðubúnir að gera það sem þyrfti til að tryggja öryggi Úkraínu og Evrópu. Þúsundir hermanna NATO-ríkja eru í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi og 8.500 bandarískir hermenn eru í viðbragðsstöðu. Þegar fréttir berast af slíkum liðssafnaði er óhjákvæmilegt að segja að spennan magnist enn.
Rússar reiðubúnir á næstu vikum
Albert segir að liðssafnaður Rússa á þessum slóðum í fyrravor hafi verið allt annars eðlis. Þá hafi hann verið tengdari æfingum en nú sé ekkert slíkt í gangi. Aðalmunurinn sé að nú séu menn í allt öðrum stellingum og verið sé að kalla til varalið og koma fyrir eldsneyti og loftvörnum. Á næstu vikum verði her Rússa tilbúinn til aðgerða gegn Úkraínu og þá með skömmum fyrirvara. Stjórnarherrar í Rússlandi líti svo á að meira sé í húfi en áður var og leggi meira undir.
Kröfur settar á blað
Haft hefur verið á orði að það viti það enginn nema Vladimír Pútín Rússlandsforseti hvort af innrás Rússa í Úkraínu verður en vilji Pútins sé það sem mestu skiptir. Þess vegna er þetta allt á stigi getgátna, segir Albert, en nú hafi Rússar sett fram beinharðar kröfur um hvað þeir vilja. Þær kröfur snúist um endurskoðun á öryggiskerfi Evrópu þar sem Úkraína leikur stórt hlutverk en líka sé gerð krafa til Atlantshafsbandalagsins að taka ekki inn fleiri grannríki Rússlands og skuldbinda sig til þess að gera það alls ekki. Þessar kröfur liggi nú fyrir á blaði. Þeim hefur verið afdráttarlaust hafnað og við því bjuggust rússnesk stjórnvöld. Það í sjálfu sér vekur greinendum ugg.
Telur ekki að Rússar hætti á stríð við NATO
Rússar finna alveg fyrir þeim efnahagslegu refsiaðgerðum sem gripið var til eftir innlimun Krímskaga en þær hafa ekki haggað Pútín eða orðið til þess að Rússar hafi gefið eftir. Það hafi reyndar legið fyrir frá upphafi að efnahagsþvinganir myndu aldrei breyta stefnu Rússlands. Rússar óttist að Úkraína sé að ganga þeim úr greipum og áhrif þeirra og staða í Evrópu bíði hnekki. Albert telur alveg víst að það stefni ekki í stríð milli Rússlands og NATO. Það hætti Rússar ekki á. Efnahagsaðgerðir þær sem þegar hefur verið gripið til, koma minnst við Bandaríkin.
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er auðvitað greinilegust á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og ferðir bandarískra kafbátaleitar- og eftirlitsflugvéla sem hafa tímabundna viðveru hér hafa vakið athygli upp á síðkastið. Á síðustu vikum hefur vélum verið flogið héðan langan veg til að fylgjast með Eystrasalti en fyrir nokkru var því hætt enda rússnesk herskip sem þar voru nú á leið inn á Miðjarðarhaf og hvert þau stefna svo veit enginn.
En þó að Albert telji innrás Rússa ólíklega, hafa verið stöðugir bardagar og mannfall í austurhluta Úkraínu milli aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum og stjórnarhersins. Menn tala um innrás í Úkraínu en það er auðvitað ekki svo að Úkraínumenn telji að þar sé friður fyrir.
Hlusta má á viðtal við Albert í spilaranum hér að ofan.