Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórninni beri samkvæmt lögum skylda til að aflétta gildandi takmörkunum. Hann var gestur Kastljóss þar sem hann sagði að vegna þess að veikindi af völdum ómíkron-afbrigðisins séu minni en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir sé ekki fótur fyrir gildandi takmörkunum.

„Þess vegna er það mín skoðun við þær aðstæður, að lögin kveði á um að okkur beri að aflétta þessum takmörkunum, að lágmarki því sem var ákveðið síðast og það er að teiknast upp sú mynd að okkur beri skylda til að ganga lengra, þetta er vandasamt verk,“ segir Bjarni.

Bjarni segir skiljanlegt að sóttvarnalæknir vilji fara varlega því beinlínis séu líf í húfi en samkvæmt lögum eigi að aflétta sóttvarnatakmörkunum eins fljótt og verða má.

Sóttvarnalæknir sagði í kvöldfréttum RÚV ekki ráðlegt að aflétta of hratt. Hann sé að horfa til annars febrúar  með frekari tilslakanir innanlands sem er dagurinn sem núgildandi reglur renna út. Hann hefur hins vegar afhent heilbrigðisráðherra minnisblað um tilslakanir á sóttkví og sýnatöku.

Bjarni var spurður hvort hann myndi leggja til að núgildandi takmarkanir yrðu afnumdar án þess að það komi tillaga um það frá sóttvarnalækni. „Ég lít á það sem skyldu mína að benda á það sem segir í lögunum. Ég skoða rökin og við verðum að muna að það er algjört neyðarúrræði að grípa svona inn í líf fólks og segja; nú mega bara tíu koma saman, þessir aðilar mega ekki hafa opið nema svo og svo lengi. Þetta er algjört neyðarúrræði, það er algjörlega skýrt í lögunum. Það ber að draga slíkar ráðstafanir til baka þegar forsendurnar eru ekki til staðar. Þegar við skoðum þessar síðustu ráðstafanir, þá er það mín skoðun á grundvelli talnanna sem liggja núna á borðinu, að forsendurnar eru brostnar, þetta mun ég segja, en svo ræður ráðherrann hvað hann gerir.“