Þolendur kynferðisofbeldis hafa stigið fram undanfarið og greint frá ofbeldi af ýmsum toga. Yfirleitt greina þolendur frá reynslu sinni á samfélagsmiðlum, ýmist nafnlaust eða undir nafni. Lögmaður sem hefur haft fjölda kynferðisbrota til meðferðar segir að þolendur upplifi oft á tíðum að það sé brotið tvisvar á þeim, fyrst af geranda þeirra, og svo af réttarkerfinu.

Vantraust þolenda í garð réttarkerfisins er ekki nýtt af nálinni. Lengi hafa þolendur efast um gagnsemi þess að fara með mál fyrir dómstóla því litlar líkur séu á sakfellingu í slíkum málum.

Í gær var haldið málþing á vegum lagadeildar Háskólans í Reykjavík um MeToo og réttarkerfið. Spegillinn ræddi við fjórar konur sem fluttu erindi á málþinginu, þær Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, lögmann, Dr. Margréti Einarsdóttur, prófessor við lagadeild HR, Dr. Maríu Rún Bjarnadóttur verkefnisstjóra gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra og Guðnýju Hjaltadóttur, lögfræðing sem stýrði málþinginu. Guðný fékk fyrst spurninguna sem var yfirskrift þingsins, getur verið að réttarkerfið virki ekki sem skyldi fyrir þolendur kynferðisofbeldis? 

„Já ég held að það segi sig nú bara sjálft. Við erum með aðallega þolendur sem eru að tjá sig á samfélagsmiðlum vegna þess að þeir upplifa það að þeir hafi ekki fengið réttlæti hjá kerfinu. Menn getur alveg greint á um það hvort kerfið sé að gera hlutina rétt, en þetta er afleiðingin. Við bara sjáum það að þetta er ekki að ná utan um þessi brot.“ segir Guðný.

Og í því holrými sem myndast hefur á milli þolenda og réttarkerfisins spratt einmitt #metoo bylgjan upp. En hvaða leikreglur gilda þar? Má hvað sem er?

„Það er ólíkur mælikvarði í refsimáli þar sem er verið að sýna fram á sekt einhvers, sem eigi að leiða til refsingar annars vegar og svo hins vegar í einkamáli þar sem verið er að vega og meta tjáningarfrelsið annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar. Þetta er í grunninn eins rétthá réttindi. Þú átt rétt á að tjá þig og þú átt rétt á að njóta friðhelgi einkalífs þannig að það er verið að reyna að finna einhver mörk þarna á milli. Þar liggur línan í því að ef það er ekki tilhæfulaust það sem þú ert að segja, t.d. sem þolandi um atvik þá er tjáningin oft heimil. Þannig að þú þarf ekki að sýna fram á sekt viðkomandi í einkamáli til að mega tjá þig. Þú færð alltaf að tjá þig og ef það eru afleiðingar í dómsmáli sem eiga þá að taka á þessari tjáningu þá er verið að meta hvort að þetta sé einhver algjör uppspuni eða hvort að þú hafi eitthvað fyrir þér í þessu. Að því leytinu til hafa þolendur meira svigrúm heldur en þriðju aðilar eða aðrir til að tjá sig um brot sem þolandinn segist hafa orðið fyrir. “ segir Sigrún Ingibjörg.

Þolendur mega tjá sig opinberlega þó ekki hafi verið dæmt

Nokkur kaflaskil urðu nýverið varðandi rétt þolenda til að tjá sig um mál sín án þess að dæmt hefði verið í málinu. Í nóvember féll dómur í Héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem stúlka tjáði sig á Snapchat um nauðgun sem hún taldi sig hafa orðið fyrir, en greindi einnig frá því að meintur gerandi hefði einnig brotið gegn annarri stúlku. Dómurinn var birtur í gær. Ummæli stúlkunnar sem sneru að hennar máli voru látin standa, en ummælin um mál sem hún var þriðji aðili að voru dæmd dauð og ómerk.

 Eru menn ávallt saklausir uns sekt er sönnuð? Margrét Einarsdóttir svarar því.

„Það hefur nefnilega verið ákveðinn misskilningur í umræðunni að þetta ákvæði, 2. mgr. 70 greinar stjórnarskrárinnar um að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð að það bindi einkaaðila, að það bindi þolendur kynbundins ofbeldis. Þetta ákvæði tekur einungis til handhafa ríkisvalds. Það tekur til löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Þessir aðilar mega ekki lýsa yfir sekt manna fyrr en menn hafa verið dæmdir í refsimáli fyrir lögmætum dómstóli. Þegar einkaaðili hvort sem það er þolandi kynbundins ofbeldis eða fjölmiðill eða hver sem það er tjáir sig, þá reynir á annars vegar tjáningarfrelsi sem er varið er bæði í stjórnarskránni og  mannréttindasáttmála Evrópu annars vegar og hins vegar friðhelgi einkalífs meints gerenda, sem einnig er varið í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig að það er ástæða til að leiðrétta þetta, þetta snýst um þetta samspil tjáningarfrelsis þolenda eða fjölmiðils til að tjá sig versus friðhelgi einkalífs meints geranda.“ segir Margrét.

13 prósent réttlæti?

Sigrún Ingibjörg fór meðal annars yfir í sínu erindi hvort 13 prósent réttlæti væri nóg, en aðeins 13 prósent kynferðisbrotamála sem þó eru kærð til lögreglu leiða til sakfellingar. 

„Þá var ég að vísa í rannsókn sem Hildur Fjóla og Þorbjörg Sigríður gerðu um tölfræði á árunum 2008-2009 um framgang mála innan kerfisins. Þar var gerð myndræn framsetning á þessum tölum sem sýnir að 13% mála sem eru kærð til lögreglu eða voru kærð á þessum tíma leiðir til sakfellingar og þeirri spurningu velt upp, er þetta fullnægjandi? En ég vil bæta við þá spurningu hvort að það sé fullnægjandi að 13 prósent af kærðum málum endi svona þegar það er ljóst að mikill meirihluti mála kemst aldrei einu sinni í þetta kæruferli. Spurningin mín er: Sættum við okkur við þetta kerfi eða þurfum við að breyta kerfinu og lagaumgjörðinni, samfélagshugsuninni til að ná betur utan um brotin þannig að allar konur sem verða fyrir broti geti farið leið sem tryggir að þær upplifi réttlæti?“ segir Sigrún Ingibjörg.

María Rún Bjarnadóttir líkti yfirstandandi breytingum sem kallað hefur verið eftir í meðferð kynferðisbrotamála við náttúruöfl.

„Það safnist upp kvika, sem eru þá þessi mál sem ganga ekki vel, þessi frústrasion brotaþola og þegar þrýstingurinn verður nógu mikill þá verði gos hreinlega. Það er í raun og veru það sem ég held að við séum að sjá og það er búið að vera að safnast í þónokkurn tíma í þessu kvikugöng og þrýstingurinn er að aukast og ég held að kannski sjáum við bara gos.“ segir María.

En hvar stendur íslenskt réttarkerfi í þessum málum miðað við nágrannalöndin?

Það er bara allur gangur á því. Ef við horfum á í raun og veru ríkin sem við berum okkur helst saman við sem eru hin Norðurlöndin þá hefur verið tiltölulega góður taktur í því að við höldum sæmilega sama takti en varðandi tiltekna þætti eins og t.d. varðandi réttarstöðu brotaþola, hvort að þeir séu aðilar máls eða ekki þá er ekki alveg samhljómur á Norðurlöndunum. Í Finnlandi er það þannig. Í Svíþjóð og Noregi geta þolendur haft aðild á ákveðnum forsendum en ekki beina aðild hér á Íslandi og í Danmörku. Auðvitað erum við kannski nýlenduarfleiðin, við horum alltaf mikið til Danmerkur í allri okkar lagavinnu. Kannski er ástæða til að stækka sjóndeildarhringinn í þeim efnum. En að mörgu leyti er íslensk löggjöf og ekki síður sá stuðningur sem er í boði fyrir þolendur kynferðisbrota á Íslandi, hann er góður ef við berum okkur saman við mörg önnur lönd. Það kostar ekkert fyrir brotaþola að hafa réttargæslumann, ríkið stendur undir þessum kostnaði. Þolendur eiga rétt á aðstoð, sálfræðiaðstoð, við erum með Bjarkarhlíð og sambærileg úrræði. Við erum með stórkostleg samtök eins og Stígamót sem hafa gert magnaða hluti. Það er heilmikið sem gengur fínt hjá okkur. Þetta eru bara svo ömurleg mál. Það er það, að lenda í kynferðisbroti og þurfa að ganga þennan veg. Það verður aldrei gaman.“ segir María.

Hljóð og mynd fer ekki saman

„Nú hef ég verið með talsverðan fjölda mála, farið yfir og rætt við þolendur og það sem mér finnst sárast að heyra þegar þolendur, fleiri en einn, segja við mig það var brotið gegn mér tvisvar, fyrst brotið og svo kerfið. Þetta er hræðilegt. Þetta má ekki vera svona. Það er hægt að bæta upplifun þolenda af kerfinu með ýmsum aðgerðum. Ef það er ekki hægt innan núverandi kerfis þá þurfum við bara að byrja upp á nýtt því þetta gengur ekki svona. En á sama tíma er traust í garð lögreglunnar talsvert mikið hér á landi. Já, lögreglan er sú stofnun samfélagsins sem nýtur mest trausts ef við horfum á skoðanakannanir sem eru gerðar mjög reglulega. En á sama tíma að þá er, og það er óumdeilanlegt, að þolendur kynferðisbrota eru ekki að kæra brotin, þeir eru ekki að tilkynna, þeir eru ekki að fá frábæran framgang þannig að það er alveg ljóst að þeir eru ekki að treysta kerfinu til að fara með málin sín, hvort sem það er lögreglan eða dómstólarnir eða hvaða þáttur sem það er en þarna fara hljóð og mynd ekki saman og það er rosalega mikilvægt að því verði kippt í liðinn.“ bætir Sigrún Ingibjörg við.

Hvað vonist þið til að gerist? Hvað þarf að breytast? 

„Ég nefndi í erindi mínu að það eru nokkur atriði sem standa upp úr innan núverandi kerfis sem er mjög auðvelt að bæta með mönnun og fjármagni. Eins og til dæmis málshraðinn, og umfang rannsóknarinnar. Þá á ég við að þessi mál séu sett í forgang. Og það er þannig að það er yfirlýst stefna að þessi mál eigi að fá forgang innan kerfisins en það má gera betur og það þarf að gera betur. Hlutir eins og að taka strax skýrslu er algjört lykilatriði og líka vitnum. Sömuleiðis að ganga lengra í að púsla saman heildarmyndinni um hvað gerðist.“ segir Sigrún Ingibjörg.

Gera þarf greinarmun á ósæmilegri hegðun og brotum

Þessi bylgja núna, sem þið kallið þriðju metoo bylgju, kostir og gallar hennar?

„Helsti kostur er náttúrulega að þolendur fái rödd, að þolendur fái að skila skömminni og það er merkilegt að fylgjast með þeirri þróun sem er að verða varðandi skömmina sem fylgja þessum brotum. Alla tíð hafa konur burðast með ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir og skammast sín fyrir það. Nú er að verða algjör viðsnúningur. Þolendur standa upp og segja það eru ekki þolendur sem eiga að skammast sín, það eru gerendur og ég leyfi mér að vona að með þessari bylgju sé það liðin tíð að konur þegi árum og áratugum saman yfir ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir með oft skaðlegum áhrifum á heilsu þeirra. Annað er auðvitað að þetta eru ákveðin varnaðaráhrif. Gerendur vita sem er að það er langlíklegast að þeir komist upp með brot sín. Það er langlíklegast að þeir fái aldrei dóm fyrir brot sín. En nú geta þeir ekki verið öruggir um að það hafi engu að síður afleiðingar. Þeir geta alltaf átt von á því að þolandi stígi fram, og annað hvort nafngreini þá eða gefi til kynna um hvern er að ræða, að þeir hafi brotið af sér sem getur kostað þá mannorð þeirra og jafnvel afkomu. Gallar: Mér finnst svolítið varhugavert í umræðunni er að mér finnst stundum verið gerður lítill greinarmunur á minna alvarlegum brotum, kannski athöfnum sem er ekki refsiverð, frekar ósæmilegri hegðun. Af því að þó að við fordæmum alla ósæmilega hegðun gagnvart konum þá er það ekki sami hlutur að vera með væga kynferðislega áreitni eða vera fullur og leiðinlegur og dónalegur á fylleríi og beita konur líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Þarna verðum við sem samfélag að taka samtalið, jú við fordæmum ósæmilega hegðun og viljum að það séu afleiðingar, en hversu langt eiga afleiðingarnar að ná? Maður sem sýnir af sér einhvers konar vægt kynferðislegt áreitni, samfélagið gerir kröfu um að menn víki sæti úr áhrifastöðum, séu ekki í landsliðum o.s.frv. En hversu langt á það að ganga? Hvenær er gerandinn búinn að taka út sína refsingu? Við viljum sem samfélag að gerendur sýni iðrun og biðjist afsökunar og bæti ráð sitt. En þá verðum við sem samfélag, verðum við ekki líka að vera tilbúin til að fyrirgefa?“

Er sá rammi nægilega mótaður, hvenær menn hafa borið sína ábyrgð eða sýnt iðrun?

Nei alls ekki. Þetta er ákveðin bylting sem er að koma hlutunum af stað. Svo þurfum við að eiga samtalið. Við erum í auga stormsins, en þetta er samtal sem verður að eiga sér stað.“ segir Margrét Einarsdóttir.

Rætt var við þær í Speglinum. Pistilinn má heyra hér að ofan. Hér að neðan má svo heyra lengri útgáfu af viðtalinu.