Innviðaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar segja að reisa þurfi nýjar virkjanir til að ljúka orkuskiptum á landi, lofti og sjó. Landsvirkjun telur að auka þurfi orkuöflun um fimmtíu prósent svo unnt verði að ná markinu.

Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfullt markmið. Í stjórnarsáttmálanum er sett fram markmiðið að „Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.“

Höfum við næga orku í orkuskiptin?

„Nei, við höfum hana ekki. Þetta er umtalsvert magn sem þarf, allt að tíu terawattsstundir sem er mikið magn. En það þarf að hafa það í huga að það magn þarf ekki strax. Orkuskiptin munu gerast hægt, því miður. Þau munu taka tíma í upphafi en svo mun orkuþörfin aukast þegar líður á næstu 20-30 ár,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Rafeldsneyti fyrir flugvélar og skip orkufrekt

Hörður telur að nauðsynlegt verði að knýja stærri bíla, skip og flugvélar með rafeldsneyti. 

„Rafeldsneytið krefst meiri orku, það er verri nýting í því,“ segir Hörður. 

Hörður segir að á næstu tíu árum verði orka sótt með nokkrum nýjum virkjunum, sem gefa um 300 MW:

  • Hvammsvirkjum í Neðri-Þjórsá,
  • stækkun jarðhitasvæðis á Þeistareykjum,
  • litlum vatnsaflsvirkjunum á veituleið Blöndu og
  • með því að virkja vindorku á Búrfellssvæði og Blöndusvæði.

En nú verði að fara að undirbúa virkjanir sem eigi að skila raforku eftir 20 ár. 

„Það tekur svona 20 ár að undirbúa virkjun. Þannig að þær virkjanir sem við ætlum að fá í notkun 2040 til 2050, þær þarf að skoða núna,“ segir Hörður. 

600 MW í samgöngur á landi og 1200 MW í skip og flugvélar

„Ef við ætlum að standa við skuldbindingar okkar í Parísar-samkomulaginu þurfum við u.þ.b. 300 MW,“ segir Hörður og segir fyrrnefndar virkjanir á næstu tíu árum ættu að skila því. „Ef við ætlum að skipta úr jarðefnaeldsneyti í samgöngum á landi, sem er kannski næsta skref og er orðið skýrt markmið stjórnvalda, þá þurfum 600 MW. Ef við ætlum að skipta út olíunni í skipunum og innanlandsfluginu, þá erum við komin í 1200 MW sem eru þessar 10 terawattsstundir, sem ég talaði um áðan,“ segir Hörður. 

Innviðaráðherra segir brýnt að tryggja raforkuöryggi núna. Hann tekur einnig undir með Herði um að það verði að reisa virkjanir.

„Engin spurning. Og það var það sem lá fyrir hér yfir í þessu húsi í nokkrar vikur í haust, til þess að finna leiðirnar. Þær eru klárar og við förum þangað,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra (B).

Hvar verður byrjað?

„Við þurfum að klára rammaáætlun. Þar eru þónokkrir hlutir. Við þurfum að leggja áherslu á hvernig við getum notað vindinn og þar erum við líka með skýrar áherslur. Já, það er augljóst, græn orka er það sem að hluta til leysir loftslagsvandann en er verið að kalla eftir í orkuþörf í augnablikinu,“ segir Sigurður Ingi.