Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, starfandi fjármálaráðherra segir að tími sé kominn til að endurmeta áhættu af faraldrinum. Hún stendur þó með ákvörðun heilbrigðisráðherra að grípa til hertra aðgerða.

Ríkisstjórnin ákvað í morgun og herða samkomutakmarkanir úr 20 manns í 10. Aðgerðirnar taka gildi á miðnætti.  Skólastarf verður óbreytt og skemmtistöðum, krám og spilasölum verður gert að loka en veitingastaðir mega hafa opið til klukkan 21.

Líkamsræktarstöðvar og sundstaðir mega áfram taka á móti helmingi leyfilegs fjölda gesta. Viðburðahald með hraðprófum fellur úr gildi en sviðslistaviðburðir, svo sem leikhús og kvikmyndahús mega taka á móti 50 manns í rými með meter á milli ótengdra með grímu fyrir vitum sér. Það gildir einnig um útfarir og kórastarf og menningarviðburði.

Íþróttaæfingar mega áfram fara fram,  en án áhorfenda. Hertar samkomutakmarkanir taka gildi á miðnætti. Efnahagslegar aðgerðir eru í smíðum til að bregðast við vegna þessa. Spegillinn ræddi við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, sem gegnir skyldum fjármálaráðherra þessi dægrin, en hann er í tímabundnu fríi frá störfum. Þórdís hefur verið talsmaður þess að hér séu ekki harðar samfélagslegar aðgerðir við lýði.

„Það eru auðvitað vonbrigði að við séum í þessari stöðu að 23 mánuðum liðnum. Ég held að að sama hvar við erum stödd í þessu öllu saman, þá séum við öll sammála um það,“ segir hún.

Hún segir að tími sé til kominn að velta fyrir sér öðrum sjónarmiðum um áhrif faraldursins, eins og til að mynda á lýðheilsu, geðheilbrigði og andlega heilsu barna, unglinga og fullorðinna.

„Ég skil vel verkefni heilbrigðisráðherra sem er erfitt og mikil ábyrgð sem því fylgir og þegar hann fær meldingar um að spítalinn ráði ekki við verkefnið þá er mikill ábyrgðarhluti að bregast við því þannig að ég reyni hvað ég get til að hafa skilning á því en bið líka um skilning á því að það er eðlilegt að spyrja spurninga. Við erum að klára 2 ár af tímabili þar sem við tókum  ákveðin borgaraleg réttindi að láni og við ætlum að skila þeim aftur og það er alveg er allt í lagi að spyrja hvenær sá tími er kominn.“ segir Þórdís.

En hvers vegna var þessi leið valin af þeim þremur leiðum sem sóttvarnalæknir bauð upp á?

„Það að fara leið 3 (herða enn frekar)  held ég að hafi ekki komið til alvarlegrar skoðunar. Var auðvitað rætt og velt upp og allt slíkt en sú aðgerð, við höfum aldrei gengið svo langt í 2 ár. Að ganga svo langt núna þegar við erum með fullbólusetta þjóð og afbrigði sem fylgja miklu minni veikindi og margfalt minni líkur á innlögnum, ég held að það væri lögfræðilega stór spurning. Hvort að við værum að gæta jafnræðiss og meðalhófs og slíkra þátta sem er hlutverk heilbrigðisráðherra að tryggja eðlilega.“ segir Þórdís.

Hún segir að ef sú leið hefði verið valin hefðu smitin eflaust blossað upp aftur eftir 10 daga. Sú ákvörðun að halda skólum opnum var tekin í upphafi árs og þrátt fyrir hertar takmarkanir nú verður ekki gerð breyting á því. Hún segir það ekki hafa verið mistök að fara ekki eftir ráðum sóttvarnalæknis um að fresta skólabyrjun eftir jólafrí.

„Ég er ekki þeirrar skoðunar. Það er mín persónulega skoðun að það hafi ekki verið mistök því við tókum þá ákvörðun fyrir dálítið löngu síðan ríkisstjórnin, að forgangsraða algjörlega þegar kemur að skólagöngu og rétti barna til að sækja sína menntun. Þrátt fyrir að það séu jú smit í skólum, þá er leiðarljós okkar og heilbrigðisráðherra hefur verið alveg skýr með það, ef það skapast þær aðstæður að það þarf að loka einum skóla í einu hverfi í Reykjavík þá sé óþarfi að loka öllum grunnskólum á öllu landinu.“ segir Þórdís.

Hún segist óttast það að tiltrú og samstaða fólks við aðgerðirnar dvíni við það að skammt sé á milli þess tíma sem leið frá því að aðgerðir voru framlengdar á þriðjudaginn og þar til þær voru hertar enn frekar í dag. 

„Ég held það satt að segja vegna þess að við sögðum það alveg skýrt á þriðjudaginn að verið væri að fylgjast með stöðunni dag frá degi. Það var ákveðin auðmýkt í því að við værum ekki að lofa því að allt yrði óbreytt í 3 vikur. En ég skil alveg fólk sem segir, heyrðu, hvað breyttist eitthvað frá þriðjudegi til miðvikudags? Kom eitthvað sérstakt upp á? Af hverju var matið allt annað? Ég skil það vel, það eru spurningar sem ég spyr sjálf en ég átta mig líka á því að við sem erum að spyrja einhverra spurninga og með einhver sjónarmið. Hvort sem okkar betur eða verr þá erum við öll saman í þessu, sama hvort að er komið með ógeð af þeim frasa eða ekki, það er ekki um annað að velja. Þannig er það bara. Landspítalinn er mikilvægasta stofnunin í íslensku samfélagi. Hann er hjartað í því að við séum raunverulegt velferðarsamfélag, við viljum að hlutirnir þar fúnkeri. Ég er ekki að gera lítið úr álagi eða verkefnum þar innan, en við verðum þá að gera það sem gera þarf til þess að við ráðum við þau verkefni. Samfélagið á líka skilið að komast í eðlilegt horf, það á líka að geta gert kröfur um að bæði við í stjórnmálum, fjárveitingarvaldið, stjórnendur á spítalanum o.s.frv. að við séum saman í því að gera það sem gera þarf til að samfélagið fái að njóta vafans og komast í eðlilegt horf,“ segir Þórdís.

Fyrirtækjum í veitingaþjónustu gefst kostur á að fresta greiðslu á sköttum og tryggingagjaldi til að mæta tekjutapi vegna sóttvarnaaðgerða. Lokunarstyrkir og viðspyrnustyrkir verða framlengdir. Vonast er til að aðgerðirnar komi til framkvæmda á næstu dögum. Stefnt er á að frumvarp þessa efnis verði á dagskrá þingsins á mánudaginn.

Rætt var við hana í Speglinum. Lengri útgáfu viðtalsins má heyra hér að ofan.