„Við erum búin að vera að heimsækja mömmu í mörg ár og höfum aldrei séð fólkið svona áður,“ segir Margrét Sesselja Magnúsdóttir um örlagaríkan fund hennar og Stefáns Helga Stefánssonar söngvara. Síðan hafa þau um árabil skipað saman Elligleðina, sem skemmtir fólki með heilabilun.

Stefán Helgi Stefánsson söngvari starfar sem kennari og Margrét Sesselja Magnúsdóttir er fyrrverandi kennari. Leiðir þeirra lágu saman fyrir tilviljun en í dag starfa þau saman í óhefðbundna dúóinu Elligleðinni. Elligleðin er starfsemi sem hefur árum saman farið í skipulagðar heimsóknir til fólks með heilabilun, þar sem íbúar eru gladdir með söng. Viktoría Hermannsdóttir hittir Elligleðina í þættinum Hvunndagshetjur sem er á dagskrá á RÚV í kvöld.

Langaði að gefa gjöf sem fólkið á deildinni gæti notið líka

Árið 2008 hittust þau í fyrst sinn. Stefán fékk þá óvænt símtal frá konu, sem reyndist vera Sesselja. Hún tjáði honum að hún ætti níræða móður sem byggi á lokaðri deild á Hrafnistu í Reykjavík. Hún vildi endilega fá hann í smá verkefni. „Hún segir: Við systkinin, okkur langar að gefa henni eitthvað í afmælisgjöf sem fólkið á deildinni getur notið með henni. Þau fá mig og Davíð Ólafsson söngvara til að koma og syngja fyrir sig nokkur létt og skemmtileg lög,“ rifjar Stefán upp.

Höfðu aldrei séð fólkið svona áður

Þeir Davíð slógu til, mættu á Hrafnistu og voru að eigin sögn bæði léttir og skemmtilegir. Þeir sungu nokkur lög, þökkuðu fyrir sig og fóru. Það stóð ekkert endilega til að endurtaka leikinn, en þarna var Sesselja að fylgjast með og hún ákvað að slá á þráðinn til Stefáns. „Við systkinin sem vorum þarna erum bara í smá sjokki,“ segir Sesselja í símann. „Við erum búin að vera að heimsækja mömmu í mörg ár og höfum aldrei séð fólkið svona áður.“

Það voru ekki bara systkinin sem voru hrærð því brúnin lyftist hjá nánast öllum íbúum og margir sungu með. Sesselja tók eftir þessu og spyr Stefán í framhaldi af því hvort hann sé til í að koma aftur til að veita þessa ánægju. Og það stóð ekki á svari hjá Stefáni.

Dýrmætt hvernig hann kom fram við fólkið

Eftir þetta ákvað Sesselja að bjóða Stefáni samstarf. „Þarna var ég með þig alveg undir smásjá,“ segir Sesselja við kollega sinn. „Það var svo dýrmætt hvernig hann kom fram við fólkið. Það var ekkert langt liðið á prógrammið hjá honum þegar ég var alveg búin að ákveða að þetta væri minn maður, ef ég myndi gera eitthvað meira með þetta.“

Engu líkara en að hann hefði beðið við símann

Og þá kom símtalið sem varð upphafið að Elligleðinni. „Það var engu líkara en hann hefði beðið eftir því að það væri hringt í sig, ég get svarið það. Þú þurftir ekki einu sinni að hugsa þig um,“ segir hún við Stefán sem tekur undir. Heimilin eru orðin þrjátíu og sex sem þau vinirnir heimsækja reglulega og hafa þau skemmt heilabiluðum nú um árabil.

Hvunndagshetjur eru á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:35.