Prófessor í heimspeki segir að kynbundið ofbeldi þrífist í öllum lögum samfélagsins. Hegðun og lifnaðarhættir manna sem stigu til hliðar í gær í kjölfar ásakana um kynferðisofbeldi minni helst á norsku þættina EXIT.
Fimm áberandi menn úr viðskiptalífinu á Íslandi stigu til hliðar í gær í kjölfar ásakana um kynferðisbrot. Málið hefur verið til umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, eftir að Vítalía Lazareva greindi frá því í hlaðvarpinu Eigin konur hvernig mennirnir hefðu farið yfir mörk hennar í heitum potti í sumarbústaðarferð í desember 2020 og einnig í golfferð á síðasta ári.
Mennirnir fimm voru stjórnarmenn í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins og áberandi í viðskiptalífinu og fjölmiðlum. Orðrómur hafði verið á kreiki um brotin um nokkra hríð og stjórnir fyrirtækja sem sumir mannanna störfuðu hjá höfðu vitneskju um málið án þess að aðhafast, fyrr en í gær.
Óþolandi meðvirkt samfélag
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR sagði á Kjarnanum í gær að lífeyrissjóðir virtust ekki hafa mikinn hvata til að leita réttar síns ef grunur léki á brotlegri eða siðlausri háttsemi stjórnenda fyrirtækja sem þeir fjárfesta í, þrátt fyrir fagurgala um siðferðisviðmið og alþjóðleg samfélagsleg viðmið.
Hann segir íslenskt samfélag vera óþolandi meðvirkt og að oft sé horft fram hjá alvarlegum málum ef þau komast ekki í almenna umræðu eða á forsíður fjölmiðla, og vísar þar til KSÍ málsins sem náði hámæli á seinasta ári.
Valdaójafnvægi í fleiri öngum samfélagsins
Eyja Margrét Brynjarsóttir prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands segir að valdaójafnvægi á milli karla og kvenna þrífast víðar í samfélaginu en þessi mál sýna.
„Ég held að það hljóti bara að vera og það er kannski eitt sem mér hefur fundist einkenna þetta er að þegar svona mál koma upp á yfirborðið þá stíga oft fram í kjölfarið jafnvel fjöldi annara kvenna sem fara að tala um að já ég lenti í honum líka fyrir x mörgum árum síðan þannig að þetta eru yfirleitt ekki einhver svona afmörkuð brot sem eiga sér stað heldur eru þetta oft menn sem hafa kannski stundað þessa sömu hegðun um lengri tíma og það í rauninni segir okkur það að ef þessir menn hafa stundað þetta lengi þá hljóta að vera fleiri sem við höfum ekki heyrt af ennþá.“
Þessir menn sem stíga þarna til hliðar í gær, þetta eru leyfi ég mér að segja stórlaxar, en það eru fleiri fiskar í sjónum, heldurðu að þetta sé víðar í samfélaginu?
„Já ég held að þetta sé því miður ekki einsdæmi og ég veit ekki með nákvæmlega, kannski þær lýsingar sem við höfum fengið á þessu hljómar svolítið eins og eins og sumir hafa bent á, þetta hljómar eins og í EXIT þáttunum norsku, eitthvað sem á að vera einkenni á hinu ljúfa lífi þeirra sem hafa frægð og frama, eða peninga og völd eða eitthvað svoleiðiss og verið einhvernveginn að meðhöndla konur þannig að þær eru settar við hliðina á fínu bílunum, vindlunum og koníakinu og þá þurfi að hafa líka flottar konur og þær eru einhvernveginn samksonar neysluvara. Þar birtist kannski ekki nákvæmlega í þeirri mynd í öðrum stéttum og geirum samfélagsins en það er grasserandi því miður allskonar kynbundið ofbeldi og kynferðisofbeldi út um allt samfélagið.“ segir Eyja.
Hún segir mikilvægt fyrir þolendur að þeim sé trúað þegar greint er frá ofbeldi.
„Það er í rauninni aukaáfall að lenda í því að vera ekki trúað og finna að það sé ekki hlustað.“ segir hún.
Vandasöm viðlíkun
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem þá var dómsmálaráðherra gagnrýndi Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara seint á seinasta ári en Helgi líkaði þá við færslu Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, en hann birti brot úr skýrslutöku lögreglu af Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur, sem steig fram í tengslum við KSÍ málið. Áslaug sagði það vafasamt af Helga að tjá sig með þessum hætti og vísaði í siðareglur ríkissaksóknara fyrir ákærendur. Áslaug kom einnig fram í myndbandi sem hlaðvarpið Eigin konur gerði, þar sem fólk sagðist trúa þolendum kynferðisofbeldis. Það myndband var síðar tekið úr umferð vegna mála sem komið höfðu upp í tengslum við þá sem birtust í því.
Það vakti undrun margra í gærkvöld að sjá viðlíkun Áslaugar við Facebook færslu Loga Bergmanns í gær þar sem hann segist saklaus af þeim sökum sem á hann hafa verið bornar. Fleiri líkuðu við færslu Loga, til að mynda Hafrún Kristjánsdóttir sem vann skýrslu um vinnubrögð KSÍ fyrir hönd ÍSÍ sem og fjölmiðlafólk og fleiri.
„Ég held að það sé og við ættum að vera búin að læra það eftir öll þessi ár sem samfélagsmiðlar hafa þó verið til að við getum þurft að passa okkur hvar við smellum okkar like-i og að það er eitthvað sem fólk lítur á sem ákveðin skilaboð þannig að ég myndi allavega vilja ráðleggja því fólki að hugsa sig betur um hvaða skilaboð það sé að gefa með því.“ segir Eyja.
Lítur ekki vel út fyrir stjórnina
Stjórn Íseyjar hafði vitneskju um að Ari Edwald væri viðloðinn málið strax í haust en aðhafðist ekki fyrr en í gær. Hefði stjórnin átt að grípa fyrr inn í að mati Eyju?
„Þetta lítur ekki vel út sem kom fram í gær þar sem var talað um að við höfðum heyrt af þessu máli og samið um það við Ara að hann myndi óska eftir leyfi ef eitthvað meira yrði úr málinu og þá auðvitað liggur beint við að velta fyrir sér, snýst þá málið um það að þetta hafi orðið opinbert en ekki um að þetta hafi gerst. Þá hljómar þetta svolítið þannig eins og þeim hafi verið sama um að hann hefði brotið svona af sér en þeim væri síður sama ef að þetta kæmist í hámæli. Ég held að þau þurfi einhvernveginn að svara fyrir það.“
Þurfa stjórnir að bregðast fyrr við áður en þetta kemst í hámæli?
„Auðvitað á fólk ekki að, hvort sem það eru stjórnir fyrirtækja eða aðrir í kring að taka þátt í að þagga niður þegar það veit af svona brotum og auðvitað á að taka á málinu jafnvel þó að það sé ekki búið að fréttast um leið og fólk veit af því eða fyrirtækið, eða stjórn þess eða hver sem það er sem heyrir af því en það er í rauninni bara hluti af ábyrgum stjórnunarháttum að taka á málum um leið og stjóendur heyra af þeim en ekki bíða og sjá til hvort að þetta muni nokkuð spyrjast út.“
Mörg stór fyrirtæki eru með allskonar siðareglur, viðbragðsáætlanir og þar fram eftir götunum. Fer ekki saman hljóð og mynd? Plaggið er til en það er ekki farið eftir þeim?
„Það hljómar svolítið þannig og ég myndi nú ætla að siðareglur og verklagsreglur séu ætlaðar til þess að fólk fari að grípa inn í skv þeim um leið og málið kemur upp en að það sé ekki beðið með að fara eftir þeim þangað til að málið kemst í fjölmiðla.“ segir Eyja.
En hvað heldur hún að gerist í framhaldi af þessu máli og þeirri þróun sem hefur átt sér stað seinustu misseri?
„Ég vona að þessi þróun, þessi jákvæða þróun haldi áfram en það er þungur róður og eins og fleiri hafa bent á þá koma alltaf bakslagsviðbrögð við svona byltingarkenndum hlutum þannig að við getum alveg átt von á því að það komi einhver bylgja allavega hjá einhverjum hluta samfélagsins þar sem kemur fram meiri gerendameðvirkni og einhverjir reyna að grafa undan orðum þolenda og einhverjir fara að tala um að þetta sé farið að ganga alltof langt. Það eru þessi klassísku viðbrögð sem við höfum heyrt bæði í gegnum árin og áratugina gagnvart allri feminískri baráttu, já,þetta er farið að ganga allt of lang, farið að ganga út í öfgar og þetta hefur komið líka sem svar við metoo, já þetta er farið að ganga alltof langt en svo kannski er ekki endilega ljóst með hvaða hætti þetta hafi gengið of langt, það fylgir ekki endilega, en það eru svona bakslagsviðbrögð sem koma alltaf líka. Við getum sagt að það komi 2 skref áfram og 1 aftur á bak en vonandi heldur þetta áfram að þokast í rétta átt og ég von að þessir atburðir sé einhver varða á þeim vegi.“ segir Eyja að lokum.
Rætt var við Eyju Margréti í Speglinum. Hlusta má á pistilinn hér að ofan.