„Ég myndi bara kalla það jafnvel útlendingahatur,“ segir Joanna Marcinkowska, verkefnisstjóri ráðgjafarstofu innflytjenda, vegna ummæla um að óbólusettir útlendingar séu þeir sem séu að sliga heilbrigðiskerfið. Hún segist hafa orðið vör við aðra fordóma gegn innflytjendum vegna COVID.
Ár er síðan ráðgjafarstofa innflytjenda var sett á laggirnar og segir Joanna kórónuveirufaraldurinn hafa sett mark sitt á starfið. Starfsemin snúist um að vera með fólki, en það hafi ekki alltaf verið möguleiki vegna sóttvarnartakmarkanna. Verkefnið sé stórt og viðamikið á venjulegum tímum, en COVID hafi gert það erfiðara.
Joanna segist ekki verða vör við tregðu við bólusetningar hjá innflytjendum. Það hafi verið erfitt að ná til fólks og ráðgjafastofan þurfi meiri tíma.
Hægt er að sjá allt viðtalið við Joönnu í Kastljósi kvöldsins í spilaranum hér að ofan.