Ört stækkandi hópur kajakræðara og standbrettafólks harmar að brátt muni heitt vatn sem rennur úr Vaðlaheiðargöngum og út í Pollinn á Akureyri hverfa. Til stendur að leiða vatnið í nýtt baðlón handan Akureyrar.
40 gráðu heitur foss
Það olli töluverðum vandræðum þegar stór heitavatnsæð opnaðist við framkvæmdir í Vaðlaheiðargöngum árið 2014, en eftir að verktökum tókst að koma böndum á vatnið sem er rúmlega 40 gráðu heitt hefur það runnið beint í sjóinn, mörgum til mikillar gleði. Sigrún Björk Aradóttir, er ein þeirra sem nýtt hafa staðinn mikið. „Alveg grimmt, við erum mjög mikið hérna. Við erum að leika okkur, taka myndir og njóta í raun og veru,“ segir Sigrún.
„Við eigum eftir að sakna hans“
Fossinn er ekki aðeins heitur og notalegur því á bak við heitan vantsflauminn leynist fallegur hellir. En gleðin við heita fossinn gæti dofnað á næstunni því strax á nýju ári verður vatnið leitt rúmlega tvo og hálfan kílómetra að húsi Skógarbaða, nýs baðstaðar handan Akureyrar. Sigrúnu líst illa á það. „Við eigum eftir að sakna hans. Af því að þetta er búið að vera svo mikil heilsubót og þetta er búin að vera mjög mikil upplifting fyrir svæðið að hafa þennan foss hérna.“
Fossinn haft góð áhrif á sportið
Hún segir að með tilkomu fossins hafi hópurinn sem stundar róður í Pollinum margfaldast. Þá hafi ferðaþjónusta byggst upp í kringum greinina sem hún óttast að nú muni fjara út. „Alveg klárlega, það eru alveg nokkur fyrirtæki sem hafa gert út ferðir og þær ferðir bara hverfa alveg.“