Sætustu stelpurnar í eins peysum

Flíkurnar sem Margrét og Rebekka voru á höttunum eftir eru eldri þær sem finnast í flestum tískuverslunum með notuð föt. Þær leituðu á náðir fataleigu í Stokkhólmi, köfuðu í búningasafn RÚV og fundu einnig flíkur í verslunum Rauða krossins og ABC Barnahjálpar. Rebekka segir síðan að „JS fataleigan”,  það er fataskápur föður hennar, sé ein sú sterkasta í bransanum. Foreldrar hennar hafi verið miklir fatasjúklingar og hendi engu, og það hjálpi mikið. „Svo á ég nú tvo gáma af fatnaði sem við mokuðum út úr,” segir Margrét. „Aumingja börnin mín erfa einhverja gáma af fatnaði.”

En auðvitað, heldur hún áfram, kemur alltaf til einhver saumaskapur. „Þegar maður er að skapa aðalkaraktera vill maður ekki að það sé bara einhver slembilukka. Og þá þarf að búa það til.”

„Bara eins og í fyrsta þætti,” grípur Rebekka inní. „Ásinn okkar, hún Harpa – leikin af Nínu [Dögg Filippusdóttur] er náttúrulega sætasta stelpan í plássinu. Og þá fékk hún bara peysu frá sætustu stelpu í heimi.”

Þar á Rebekka við Hólmfríði Karlsdóttur, eða Hófí eins og hún er jafnan kölluð, sem hlaut titilinn Ungfrú Heimur árið 1985. Þær fundu ljósmynd af Hófí frá þessum tíma, í fallegri prjónapeysu, og prjónuðu eftirmynd af henni á persónu Nínu. „Okkur fannst það viðeigandi.” 

Rebekka og Margrét ræða ítarlegar um verbúðarverkefnið, vinnu á tökustað og hvernig það er að starfa með ólíkum leikstjórum, í fyrrnefndu förunauts-hlaðvarpi Verbúðarinnar – með Verbúðina á heilanum. Í fyrsta þætti hlaðvarpsins er einnig rætt við fjölmiðlamanninn Árna Matthíasson um lífið á verbúð, sem hann reyndi á eigin skinni á níunda áratugnum.

Nýr hlaðvarpsþáttur kemur á þar til gerðar veitur og í spilara RÚV á hverju sunnudagskvöldi, í kjölfar Verbúðarinnar.