Margir hafa látið taka úr sér sýni á Suðurlandsbraut í Reykjavík í dag og hefur röðin eftir PCR-prófi náð mörg hundruð metrum, hlykkjast um bílaplanið og eftir Ármúlanum. Þeir sem bætast við röðina núna fara í hana við höfuðstöðvar Símans. Napurt er í höfuðborginni, hiti við frostmark og lítils háttar snjókoma. Þónokkur fjöldi fólks hefur haft samband við fréttastofuna og sagst hafa beðið í röðinni á aðra klukkustund. Eitthvað var um að fólk hefði gefist upp á biðinni og snúið við.
Gremju og kvíða hefur gætt hjá þeim sem eru með einkenni, lasnir og hóstandi, að þurfa að bíða svo lengi úti í kuldanum.
Ingibjörg S. Steindórsdóttir, verkefnastjóri með sýnatökum á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, mátti ekki vera að því að tala við fréttastofuna en sagði mjög mikið að vera að gera. Opið verður í sýnatöku fram til klukkan þrjú en Ingibjörg segir að þeim sem bíði þá í röð verði ekki vísað frá. Opnað verður að nýju í sýnatökur að Suðurlandsbraut klukkan átta í fyrramálið.
Ekki er biðröð eftir hraðprófi og gengur fólk nánast beint inn í þau. Sóttvarnalæknir hefur þó mælst til þess að þeir sem finna fyrir einkennum fari í PCR-próf.