Snemma á þessu ári breyttist líf þeirra Hönnu Bjarkar Hilmarsdóttur og Arnars Long Jóhannssonar á einni nóttu. Fyrsta apríl eignuðust þau nefnilega þrjú börn í einu. Það er mikill hasar á heimili þeirra þar sem þau skipta á tæplega tuttugu bleyjum á dag. „Við erum alltaf bara á fullu,“ segir Hanna.
Árið var sannarlega viðburðarríkt, en hjá fáum breyttist lífið jafn mikið á einni nóttu og hjá þeim Hönnu Björk Hilmarsdóttur og Arnari Long Jóhannssyni, sem eignuðust þríbura 1. apríl. Hanna og Arnar, ásamt börnum sínum fjórum, kíkja í heimsókn til Ragnhildar Steinunnar og Sveppa í þættinum Jólastundin með Ragnhildi Steinunni og Sveppa sem er á dagskrá í kvöld. Auk Hönnu og Arnars eru meðal gesta þeir Auðunn Blöndal og Gauti Þeyr Másson sem báðir mæta með afkvæmi sín. „Þetta fólk ætti að fá viðurkenninguna manneskja ársins,“ segir Ragnhildur Steinunn þegar hersingin mætir á svæðið. Þríburarnir heita Írena, Bjartur og Þorri en Hanna og Arnar áttu fyrir soninn Ingiberg sem er tveggja ára.
Foreldrarnir viðurkenna að árið hafi verið nokkuð rosalegt. „Dagarnir eru misjafnir, sumir erfiðari en aðrir,“ segir Arnar. „Við erum alltaf bara á fullu,“ tekur Hanna undir.
Arnar er nýfarinn að vinna aftur svo Hanna er ein heima á daginn með þríburana. Það getur verið krefjandi. „Að vera ein heima með þrjú börn er rosalegt. Það er mjög mikil vinna,“ viðurkennir Hanna. „Hann er búinn að vera að fara út á morgnana klukkan sex og hann kemur heim klukkan sex.“
Og á hverjum degi er skipt á fimmtán til tuttugu bleyjum á heimilinu. „Við fluttum í nýtt hús þegar þau voru að fæðast og þurftum að panta auka svarta tunnu fyrir bleyjur og pakkningarnar af þurrmjólkinni,“ segir Arnar.
Foreldrarnir nefna öll hvernig foreldrahlutverkið breytir lífinu og þótt Auðunn Blöndal vilji ekki eignast fleiri börn, en sín tvö, sér hann ekki sólina fyrir þeim. „Ég vissi ekki að það væri hægt að elska svona mikið,“ segir hann og Hanna tekur undir - en skýtur inn að það sé öðruvísi tilfinning að vera með þrjú í einu heldur en eitt, eins og þegar hún eignaðist Ingiberg. „Það er alveg skrýtin tilfinning að vera að tengjast þremur börnum á sama tíma, maður byrjar að tengjast þeim sem heild í rauninni. En svo bara eru þau dásamleg,“ segir Hanna stolt að lokum.
Jólastundin með Ragnhildi Steinunni og Sveppa er á dagskrá klukkan 19:30 á RÚV í kvöld.