Guðmundur Felix Grétarsson, sem verður á Íslandi um jólin eftir að hafa gengist undir handaígræðslu í Frakklandi, ræðir það af nokkurri hreinskilni í bókinni 11.000 volt hvernig hann nýtti sér gat sem myndaðist á fíkniefnamarkaðinum þegar dómar féllu í stóra fíkniefnamálinu um aldamótin.
Guðmundur Felix var gestur Kastljóss í kvöld og er hægt að horfa á viðtalið hér að ofan.
Stóra fíkniefnamálið kom upp um aldamótin. Sakborningar í málinu voru 19, 15 voru sakfelldir og höfuðpaurarnir fengu þunga dóma. Guðmundur Felix Grétarsson segir frá því í bók sinni, 11 þúsund volt, að þarna hafi myndast gat á fíkniefnamarkaðinum sem hann nýtti sér.
Í bókinni kemur fram að á þessum tíma hafi fíkniefnaneysla hans verið stjórnlaus og jafnvel farin að kosta tugi þúsunda á dag. „Alltaf hafði ég síðan í kringum mig nóg af sjálfboðaliðum sem hjálpuðu handalausa manninum að fá sér dóp. Þeir fengu svo að sjálfsögðu að njóta dópsins með mér.“
Guðmundur segir að þegar dómarnir féllu í stóra fíkniefnamálinu hafi hann einfaldlega verið réttur maður á réttum stað. Umfangsmestu fíkniefnasalarnir voru komnir á bakvið lás og slá og skyndilega fór fyrsta flokks efni að flæða til hans í stórum stíl. „Ég hreinlega elskaði spennuna sem fylgdi þessum nýja veruleika og umfangið varð sífellt meira. Fljótlega þurfti ég að koma mér upp kerfi til að halda utan um alla peningana sem voru byrjaðir að flæða upp úr öllum skúffum og eiturlyfin voru falin út um alla borg.“
Guðmundur segist hafa séð ljósið þegar hann áttaði sig á því að hann var orðinn skrýtni karlinn í Smáralindinni og litlir krakkar voru farnir að slást um besta útsýnisstaðinn til að skoða „gula handalausa manninn.“ Hann var þá 1,75 metrar á hæð og 47 kíló.