20 mega koma saman og tveggja metra reglan verður tekin upp að nýju í nýrri reglugerð sem tekur gildi á miðnætti annað kvöld. Leyfilegt verður að halda 200 manna samkomur með hraðprófum og sund-, skíða-, og líkamsræktarstöðvum verður leyft að taka á móti 50 prósentum af leyfðum fjölda. Ríkisstjórnin ákvað að framlengja ekki jólafrí skólanna eins og sóttvarnalæknir lagði til en skólamálaráðherrum var falið að taka stöðuna með skólastjórnendum. „Ekki skemmtileg tíðindi,“ sagði forsætisráðherra.
Metfjöldi smita greindist í gær og faraldurinn virðist nú í veldisvexti, helmingur smitaðra var með svokallað omíkron-afbrigði sem sóttvarnalæknir hefur sagt vera nánast nýja kórónuveiru.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræddu við fréttamenn eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun.
Katrín sagði að ríkisstjórnin hefði meðal annars rýnt í stöðuna í nágrannalöndunum þar sem omíkron-afbrigðið væri komið á fulla ferð. Þar væru ríkisstjórnir að bregðast við og stjórnvöld hér á landi væru engin undantekning. „Við vitum það út frá fyrstu gögnum að veikindi eru minni af völdum omíkron-afbrigðisins en við vitum ekki nákvæmlega hversu mikla vörn bóluefnin veita.“ Sóttvarnalæknir hefur sagt að svo virðist sem grunnbólusetning veiti litla vernd en örvunarskammturinn talsverða.
Katrín sagði að þetta væri eitthvað sem þyrfti að meta en vísbendingar væru um að innlagnahlutfallið væri lægra. Með þennan mikla fjölda væri þó ljóst að grípa þyrfti til aðgerða. „Og það eru ekki skemmtileg tíðindi að flytja þjóðinni í aðdraganda jóla. Óvissan væri mikil.“
Willum Þór sagði að stefna ríkisstjórnarinnar hefði verið að tempra faraldurinn og reyna að halda samfélaginu sem mest gangandi. Aðgerðir hefðu verið framlengdar fyrir um hálfum mánuði og það hefði gengið bærilega.
Nú hefði fólk hins vegar verið á óvenju mikilli hreyfingu um aðventuna og þrátt fyrir hóflega bjartsýni á að smitum gæti farið að fækka með síðustu aðgerðum hefði það ekki gengið eftir. „Og þá metur sóttvarnalæknir stöðuna þannig, og horfir meðal annars til Danmerkur og Noregs, að við beitum harðari takmörkunum.“
Samkomutakmarkanir fara úr 50 í 20, viðburðir sem hægt verður að halda með hraðgreiningaprófum fara úr 500 í 200 og nálægðarmörk verða 2 metrar í stað metrans sem hefur verið við lýði að undanförnu. Reglurnar taka gildi á miðnætti og gilda í þrjár vikur.
Katrín sagði að skiptar skoðanir hefðu verið innan ríkisstjórnarinnar en hún hefði sett sér ákveðna stefnu um að reyna tempra fjölgun smita. „Og þegar það væru komin um 300 smit á dag þá væri alveg ljóst að það þyrfti að tempra þann fjölda.“
Meginefni nýrra sóttvarnareglna:
- Almennar fjöldatakmarkanir 20 manns og börn ekki undanskilin.
- Nándarregla 2 metrar. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin. Á veitingastöðum og meðal gesta á sitjandi viðburðum er nándarregla 1 metri milli sitjandi gesta.
- Grímuskylda: Almennt er skylt að nota grímu ef ekki er hægt að virða 2 metra regluna og skylt er að bera grímu í verslunum og verslunarmiðstöðvum. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
- Hraðprófsviðburðir: Með notkun hraðprófa er heimilt að halda skipulagða viðburði fyrir allt að 200 manns í sóttvarnahólfi.
- Sitjandi viðburðir án hraðprófa: Hámarksfjöldi 50 manns. Sem dæmi má nefna sviðslistaviðburði, kvikmyndasýningar, íþróttaviðburðir og sitjandi athafnir trú- og lífskoðunarfélaga.
- Verslanir og söfn mega taka á móti 50 manns í hverju hólfi að börnum meðtöldum. Fyrir hverja 10 m² má bæta við fimm viðskiptavinum að hámarki 500 manns. Grímuskylda er í verslunum og verslunarmiðstöðvum.
- Opnunartími veitingastaða o.fl.: Veitingahúsum og öðrum stöðum þar sem áfengisveitingar eru heimilar er óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21.00 og allir gestir eiga að vera farnir hið síðasta kl. 22.00. Sama gildir um einkasamkvæmi á stöðum með vínveitingaleyfi. Nándarregla milli sitjandi gesta á veitingastöðum er 1 metri.
- Sund- og baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði: Heimilt er að taka má móti 50% af hámarksfjölda gesta. Börn fædd 2016 og síðar teljast ekki með.
Skólahald
- Á öllum skólastigum miðast hámarksfjöldi barna/nemenda við 50 einstaklinga í rými.
- Hámarksfjöldi starfsfólks í sama rými eru 20 manns og starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma.
- Nálægðarmörk: Almennt gildir 2 metra nálægðarregla en sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu er grímuskylda. Leikskólabörn eru undanskilin nálægðarreglu.
- Grímuskylda: Almennt er skylt að nota grímu ef ekki er hægt að virða 2 metra regluna. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
Sviðslistir og kórastarf
- Æfingar og sýningar með snertingu eru leyfðar fyrir allt að 50 starfsmenn á sviði. Grímur skal nota eftir því sem hægt er nema þegar listflutningur fer fram og leitast við að fylgja 2 metra reglunni.
- Fjöldi sýningargesta: Heimilt er að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum í hverju hólfi sem allir bera grímu og sitja í númeruðum sætum. Auk 50 fullorðinna mega vera 100 börn án hraðprófs í sama rými. Hægt er að taka á móti allt að 200 gestum sé fylgt reglum um hraðprófsviðburði. Viðhafa þarf 1 metra reglu milli sitjandi gesta.
- Sýningarhlé: Heimilt er að gera hlé á sýningum en áhorfendur skulu hvattir til að halda kyrru fyrir í sætum sínum.
- Áfengisveitingar eru óheimilar í tengslum við sýningar, hvort sem er fyrir, í hléi eða eftir.
- Íþróttaæfingar og keppnir barna og fullorðinna eru heimilar, jafnt með eða án snertingar, fyrir allt að 50 manns.
Fjarvinna
- Hvatt er til fjarvinnu á vinnustöðum eftir því sem mögulegt er.