220 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, sem er met. Sóttvarnalæknir leggur til að fjöldatakmarkanir verði hertar. Ekkert er um jólakúlur í minnisblaðinu en sóttvarnalæknir vill að fólk hitti eins fáa og unnt er um jólin.
Heilbrigðisráðherra fékk í morgun í hendurnar nýtt minnisblað frá sóttvarnalækni. Þær tillögur verða ræddar á fjarfundi ráðherranefndar klukkan þrjú. Að loknum ríkisstjórnarfundi á morgun mun ráðherra greina frá því til hvaða sóttvarnaaðgerða verður gripið.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mikil hreyfing hafi verið á fólki og margir viðburðir.
„Það greindust 220 í gær manns og tæplega 20 á landamærunum. Þannig að þetta er metdagur. Það hafa aldrei greinst fleiri á einum degi,“ segir Þórólfur.
Hann hefur áhyggjur af því að fleiri smit greinist á næstunni vegna þess að margir sóttu viðburði um helgina þar sem sóttvarnir voru mismiklar.
Viðbúið sé að þróunin verði svipuð hér og í Danmörku. Hann hvetur fólk til að þiggja örvunarbólusetningu.
Er ekki ljóst að það þarf að grípa í taumana?
„Ég held að flestir hafi talað þannig, og ég hef talað þannig, að nú þurfum við að hugsa okkar ráð,“ segir Þórólfur.
Þórólfur vill ekki greina frá innihaldi minnisblaðsins en segir ekki mikinn tíma til stefnu.
„Það er alveg rétt að ef á að grípa á til aðgerða þarf það að gerast eins fljótt og hægt er,“ segir Þórólfur.
Hann hvetur fólk til þess að hitta eins fáa og unnt er um jólin. Ekki er þó getið um jólakúlur í minnisblaðinu.
„Það er ekkert um jólakúlur sérstaklega en auðvitað er ég með eitthvað um fjöldamörk,“ segir Þórólfur.