Það stefnir í óhefðbundin jól hjá þeim sem greinast með kórónuveiruna þessa dagana. Veitingamenn ætla að bjóða fólki að fá jólasteikina senda heim með leigubíl og jólatré eru einnig flutt heim til fólks, og jafnvel á farsóttarhús. Hjalti Þór Björnsson, hjá jólatréssölu FBSR, segir það vera með sérstakari verkefnum þeirra þetta árið, en það sé mjög ánægjulegt að geta glatt fólk sem verður eitt yfir hátíðarnar.
„Það hefur komið beiðni um tvö tré sem við áttum að færa fólki sem er á farsóttarhúsum. Pínulítil reyndar, það var beðið um minnstu trén mögulega“ segir Hjalti og brosir. „Þetta er náttúrulega rosalega jákvætt og maður getur ímyndað sér ef fólk er komið í þessa stöðu að vera eitt veikt einhversstaðar að fá jólatré til sín. Já, þetta er mjög gaman“.
„Það er miklu meira verið að biðja um þetta í ár, að koma með trén heim og skilja þau eftir á einhverjum tilteknum stöðum“ segir Hjalti. Álagið segir hann vera miklu meira í ár, en í fyrra.
Margfalt fleiri í einangrun
Í fyrra voru um 90 manns í einangrun um jólin en í ár verða þau margfalt fleiri. Í dag eru 1.817 í einangrun, en jólin koma sama hvað og það þarf að gera ýmsar ráðstafanir til að gera sér dagamun, hafi maður á annað borð heilsu til. Þeim sem ekki treysta sér til að útbúa til að mynda jólamat gefst kostur á að kaupa hann tilbúinn hjá veisluþjónustum, hafi þeir ekki kost á að leita á náðir sinna nánustu.
Ætlar að tækla 5000 bita púsl í einangruninni
Sigrún Helga Lund og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir eru meðal þeirra sem eyðir jólunum í einangrun. Þær eiga það sameiginlegt að ætla að gera gott úr annars leiðinlegri stöðu.
„Ég á 5000 bita púsl sem ég er búin að eiga í 17 ár og hef aldrei haft tíma í. Ég er búin að dreifa því yfir stofugólfið geðveikt peppuð“ segir Sigrún.
„Ég sá fyrir mér að það gæti verið smá sætt, eitthvað smá jóla að fá jólatré í stofuna, því ég get verið þar, það er mitt svæði. Þá fær maður smá jólaanda. Svo er ég með jóladagatal sem ég opna á morgnana. Annars eru engin jól“ segir Ingibjörg.
Hægt er að horfa á viðtalið við Hjalta, Sigrúnu og Ingibjörgu í spilaranum hér að ofan.