Nú eru þrjú ár til stefnu og enn langt í land að sögn Haslund. Glufurnar eru ýmsar og ljóst að ríki þurfi að gera betur. Þetta sé nefnilega manngerður vandi sem megi leysa með laga- og stefnubreytingum og pólitískum vilja. 

Ísland næstbest í heimi? 

Ísland gæti, að mati Haslund, orðið næst á eftir Kirgistan að uppræta þetta vandamál. Fyrsta landið í Evrópu til að leysa úr málum allra ríkisfangslausra í landinu. 

Þróunin hafi verið í rétta átt, stjórnvöld hafi fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi, gert ýmsar lagabreytingar og innleitt verklag við að bera kennsl á ríkisfangslaust fólk sem flýr hingað til lands en meira þurfi til. 

Ríkisfangslaust fólk kemur hingað sem flóttamenn, í leit að alþjóðlegri vernd eða vernd á grundvelli samnings um réttarstöðu ríkisfangslausra frá árinu 1954. Þó ríkisfangslausir teljist ekki alltaf flóttamenn eiga þeir sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns. Sumir fá þessa vernd, en njóti fólk verndar annars staðar má vísa því frá.

Í útlendingalögum segir einnig að ríkið sem viðkomandi bjó í heldur því fram að viðkomandi njóti réttinda sem fylgja ríkisborgararétti í því landi. Þá má vísa fólki frá ef taldar eru ríkar ástæður til að ætla að það hafi framið stríðsglæpi eða alvarlegan ópólitískan glæp utan búsetulands síns. 

Börn eigi rétt á ríkisfangi strax

Haslund segir að það þurfi að gera ferlið við að fá ríkisborgararétt einfaldara og sveigjanlegra fyrir ríkisfangslaust fólk. Hún nefnir sérstaklega stöðu barna sem fæðast hér eða koma hingað ríkisfangslaus. Þau geta ekki öðlast ríkisborgararétt fyrr en eftir þriggja ára samfellda dvöl í landinu. Flóttamannastofnunin vilji sjá breytingar þar. Ekkert barn eigi að vera ríkisfangslaust, ekki einu sinni í stuttan tíma. Þau eigi rétt á ríkisfangi. 

Best að skoða hvert og eitt mál

En hvernig upprætir Ísland ríkisfangsleysi? Með því að útvega þessum 52 ríkisborgararétt á einu bretti? Haslund segir ríkisborgararéttinn lykilatriði - það dugi ekki að veita takmörkuð réttindi eins og dvalarleyfi. Skoða þurfi mál hvers og eins sérstaklega. Spurningin er hvernig. Það segir sig sjálft að ríkisfangslaust fólk er oft ekki með neina pappíra til að sanna deili á sér. Í þessum tilvikum mælir Haslund með því að stjórnvöld kynni sér stöðu minnihlutahópa og lagaumhverfi í landinu sem fólkið dvaldi í áður.