Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir að búast megi við sex hundruð nýjum smitum daglega ef þróunin verður sú sama hér og í Danmörku. Heilbrigðisráðherra fékk í morgun nýtt minnisblað frá sóttvarnalækni og um það verður rætt á fundi ráðherranefndar. Már segir að miðað við að miklu fleiri smit greinist hér daglega en áður, og hlutfall smitaðra er hærra í einkennasýnatöku, þá megi búast við verulegri fjölgun smita. 

„Ef við miðum okkur við okkar helstu nágranna, Dani og Norðmenn, þá hefur útbreiðslan verið í veldisvexti og tíðnitölurnar lóðbeint upp. Þetta þýðir að við sjáum miklu, miklu fleiri tilfelli á dag en við höfum séð hingað til. Við vorum með um 200 tilfelli í gær, sem er óvanalegt hjá okkur um helgi. Hlutfall jákvæðra sýna er verulega hátt núna og bara í hæstu hæðum. Ef við leggjum þetta allt saman og áætlum að við verðum í líkum leik og Danir og Norðmenn getum við búist við að sjá allt að 600 tilfelli á dag bara miðað samkvæmt höfðatölu,“ sagði Már Kristjánsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Hér á landi hafa 1,2% þeirra sem smitast af delta-afbrigðinu lagst inn á sjúkrahús. Um helmingi færri innlagnir eru hjá þeim sem fá omíkron-afbrigðið.

„Við erum að gera ráð fyrir kannski 0,7 eða 0,8% hér ef við færum fram eins og Danir. Ef við rúnnum þetta af og gerum ráð fyrir að við myndum fá  eitt prósent hérna. Með 600 tilfellum á dag þá eftir 5-7 daga þá getum við farið að búast við sex innlögnum á dag. Svo þarf hver og einn að liggja inni i nokkra daga og margir upp undir viku og jafnvel á aðra viku, þá þetta svo fljótt að safnast upp á spítalanum. Þetta væri í sjálfu sér allt í lagi ef við værum vel stödd á sjúkrahúsinu og það erum við alls ekki. Við erum í rauninni í miklum vanda. Bara í morgun voru á þriðja tug einstaklinga á bráðamóttökunni, sem ákveðið hefur verið að þurfa að liggja inni á sjúkrahúsinu. Það eru ekki rúm fyrir þessa 22 sem núna liggja á bráðamóttökunni,“ segir Már. 

Gengur ekki að taka á móti sex innlögnum á dag

Heilbrigðiskerfið þurfi að sinna öllum. „Og ef við eigum að taka sex til viðbótar á hverjum degi með covid, þá sér það hver heilvita maður að það gengur ekki,“ segir Már. 

Hann telur tvo kosti vera í stöðunni til að bregðast við fjölgun smita og álagi á spítalann.

„Það er annars vegar að taka verulega á í samfélaginu og draga úr smiti þar. Hin leiðin er hvatningarleiðin til að taka örvunarbólusetninguna og hefja bólusetningu barna sem fyrst,“ segir Már. 

Faraldurinn veldur brotthvarfi úr heilbrigðisstétt

Veiran hefur einnig stungið sér niður meðal starfsfólks. „Það koma upp tilvik á hverjum einasta degi, einfaldlega vegna þess að fólk er að koma úr samfélaginu inn á spítalann. Það eru iðulega deildir lokaðar fyrir innlagnir vegna þess að upp hefur komið smit,“ segir Már. 

Már segir sífellt erfiðara að reka spítalann vegna þess að mönnun er ekki næg. Bæði fækki þeim sem vilji vinna vaktavinnu á öllum tímum sólarhrings og svo hafi faraldurinn sitt að segja. „Fólk er að verða mjög þreytt. Þetta er það sem hefur sést erlendis. Það hefur sést brotthvarf heilbrigðisstarfsmanna um allt að 20%,“ segir Már.

Már segist verða að horfa á heildarmyndina og getu spítalans í faraldrinum.

Hvaða sjúklingar eiga að víkja fyrir covid-sýktum?

„Ef við fáum núna 15.000 manns veik, þá fáum við 150 manns inn. Það er mitt hlutverk, að benda á það: Hver er tilbúinn til að víkja þegar þessi 150 manns leggjast inn dauðveikir? Er það maðurinn með hjartaáfallið, er það maðurinn með krabbameinið eða maðurinn með gatið á görninni? Hver á að sjá um það? Ég vil geta tekið á móti samborgurunum hérna á bráðamóttökunni með öll krefjandi vandamál. Til þess að ég geti gert það þarf ég að hafa mannskap, húsnæði og annað slíkt til að geta gert það. Þá er þetta spurning um það: frelsi hvers erum við að verja ef við vitum að við getum gripið í taumana í samfélaginu og dregið úr heildarfjölda þessara mjög veiku sem kæmu út úr svona?,“ spyr Már. Hann telur að því ekki goðgá að draga úr skemmtanafrelsi fólks til að minnka álagið á spítalanum.