Sara Björk Gunnarsdóttir, íþróttamaður ársins 2020 og landsliðsfyrirliði í fótbolta, hefur tekist á við nýja áskorun í ár. Hún eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember og fram undan er næsta verkefni, sem er að koma sér aftur á fótboltavöllinn.

Sara Björk átti frábært ár innan vallar í fyrra og var í lok árs valin íþróttamaður ársins í annað sinn. Í ár hafa  hins vegar stærri verkefni átt hug hennar. Hún eignaðist son í nóvember og nýtur sín í móðurhlutverkinu. 

„Auðvitað í byrjun var þetta ákveðið sjokk. Ég vissi ekki hvernig þetta myndi ganga, hvernig meðgangan yrði og svo endurkoman í fótboltann. Hvernig mér liði með það að vera ólétt og í burtu frá fótbolta. En meðgangan gekk ótrúlega vel. Fæðingin ekki alveg eins og ég bjóst við – eða við hverju á maður svosem að búast. En hún var erfið. En nú er maður bara að njóta, þetta er dásamlegt,“ sagði Sara Björk þegar Einar Örn Jónsson ræddi við hana í vikunni.

En hvernig er lífið sem móðir? „Það er bara rosalega einfalt. Hann sefur bara og drekkur og svo gerir maður ekkert annað en að dást að honum.“ Félag Söru Bjarkar, Lyon í Frakklandi, hefur staðið við bak Söru Bjarkar á meðgöngunni og greitt fæðingarorlof, eins og reglur FIFA kveða á um. Þetta var þeim þó jafnmikið nýland og Söru sjálfri.

Mikilvægar reglur FIFA um fæðingarorlof

„Þetta var auðvitað ákveðið sjokk fyrir þá líka. Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins að leikmaður þeirra sé óléttur. Þannig þau vissu ekki alveg hvernig átti að snúa sér í þessu. En FIFA setti lög í upphafi árs að konur eigi rétt á fæðingarorlofi. Ég held að flest félög, allavega í Evrópu sé svona að reyna að átta sig á óléttum leikmönnum og hvernig þeir eigi að vinna með þá og hvernig þeir komi til baka. En í byrjun árs sögðu þeir við mig og í fjölmiðlum að þeir ætluðu að styðja við bakið á mér og hjálpa mér að koma til baka. En alveg eins og þegar maður er meiddur eða ekki hluti af liðinu á einhverjum tímapunkti þá hafa ekki verið nein samskipti. Þannig ég verð bara að sjá hvernig hlutirnir þróast þegar ég kem út. Auðvitað er sagt að ég hafi stuðning. En um leið og þetta er nýtt fyrir mér er þetta nýtt fyrir þeim líka. En þau hafa alveg heyrt í mér og spurt á hverju ég þurfi að halda og hvað þau geti gert til að hjálpa mér. En svo verður bara að koma í ljós hvernig það mun ganga.“

Unnusti og barnsfaðir Söru Bjarkar er Árni Vilhjálmsson, sóknarmaður Breiðabliks. Það skapar augljósar flækjur að foreldrarnir spili með liðum í sitt hvoru landinu og lausnin blasir kannski ekki alveg við.

„Ég spyr mig þessarar spurningar frekar oft og er enn að því. En til að byrja með koma Árni og foreldrar mínir með mér út 4. janúar. Síðan hefur komið fram hjá Árna að hann sé með klásúlu í samningnum sínum að hann geti farið. Hann er auðvitað að leitast eftir því að geta verið nær okkur. Það er kannski óvenjulegt að báðir foreldrar séu að spila. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hann sé líka á toppi síns ferils. Hann er frábær leikmaður og getur spilað í góðum liðum erlendis. Hann er með sín markmið og sína drauma. Þó maður stofni fjölskyldu þá á maður ekkert að gefa þessa drauma upp. Þannig við ætlum einhvern veginn að láta þetta ganga. Það kemur bara í ljós.“

Síðasti landsleikur Söru Bjarkar var leikurinn sem tryggði Íslandi sæti á Evrópumótinu næsta sumar. Sjö mánuðir eru til stefnu og þótt óvissan sé enn mikil stefnir Sara Björk á EM.

Stefnir ótrauð á EM

„Hausinn á mér er þar. En ég verð að fara eftir líkamanum líka og hvernig mér líður. Ég fer út í janúar og hef sett mér það markmið að byrja að æfa með liðinu í enda febrúar eða í mars. Mun það ganga? Ég veit það ekki. Ég veit bara að allir þeir hlutir sem ég hef stjórn á mun ég gera 100%. Vonandi gengur þetta bara upp. Ég verð bara að sjá milli og vikna hvernig líkamanum gengur að aðlagast og ná sér eftir fæðinguna. Auðvitað er ég búin að segja að mig langi til að taka þátt á EM. Mér finnst það vera raunhæfur möguleiki og það er mitt markmið. En við verðum bara að bíða og sjá. En ég mun allavega vinna þá vinnu sem ég þarf að gera til að reyna að komast á stórmótið. Þetta er ótrúlega spennandi og þetta verður krefjandi. Ég þarf bara að vinna mína vinnu til að í fyrsta lagi komast aftur á völlinn og svo til að vinna mér inn landsliðssætið mitt aftur,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir.