Danir drifu sig í tívolí og leikhús í gær áður en hertar sóttvarnareglur tóku gildi á miðnætti. Dönsk stjórnvöld hafa samþykkt að koma betur til móts við fyrirtæki sem standa höllum fæti vegna faraldursins.

Kórónuveirutilfellum hefur fjölgað verulega í Danmörku undanfarna daga og á fimmtudaginn tilkynnti Mette Frederiksen forsætisráðherra um hertar sóttvarnaráðstafanir. Ýmsum samkomustöðum hefur nú verið lokað, þar á meðal öllum tívolíunum.

„Í þetta sinn kemur umfang takmarkananna mjög á óvart. Við bjuggumst kannski við fjarlægðarskyldu, sem við erum orðin heimsmeistarar í, og einhverjum fleiri aðgerðum, en algjör lokun á skemmtigarðinum kemur okkur í opna skjöldu. Virkilega óvænt,“ segir Henrik Ragborg Olesen, framkvæmdastjóri Friheden-tívolísins í Árósum.

Fjölmargir Danir ákváðu því að hafa hraðar hendur í gær. „Þetta er síðasta tækifærið. Við lofuðum börnunum að fara í ár. Við ókum því alla leið frá Fjóni til að sjá jólaljósin,“ segir Sofie Nordbro sem dreif sig í tívolíið fyrir lokun.

Þá geta Danir ekki heldur sótt söfn eða dýragarða yfir hátíðirnar. „Gestafjöldinn nálgast nú hámark vegna jólanna og margir hefðu komið að dást að jólaljósunum okkar. Það eru mikil vonbrigði að þurfa að loka,“ segir Bjarne Clausen, framkvæmdastjóri dýrðagarðsins í Óðinsvéum.

Aðgerðirnar bitna ekki síst á menningarlífinu en leikhús og kvikmyndahús verða lokuð fram í miðjan næsta mánuð. Leikhúsþyrstir Danir fjölmenntu því á sýningar í gær.

Samkomulag náðist á danska þinginu í gærkvöld um að hækka greiðslur til þeirra fyrirtækja sem standa höllum fæti vegna faraldursins. Mörgum þykir þó að ganga eigi lengra í þeim efnum.

„Nú get ég verið með fjölskyldunni um jólin, sem er gott. Ég hef hins vegar ekkert annað jákvætt að segja. Allt annað er svo sorglegt,“ segir Sune Lind Thomsen, eigandi kvikmyndahúss í Kaupmannahöfn.