Skringisöngleikurinn Annette er í senn heillandi og óþægilegur, segir Gunnar Ragnarsson gagnrýnandi. „Annette setur áhorfandanum ýmsar hindranir, áskoranir og er líka nokkuð ljóst að hún er ekki fyrir alla. Í mínu tilfelli dró hún mig þó sífellt meira inn, þrátt fyrir að vera yfirþyrmandi í ofgnótt sinni.“
Gunnar Ragnarsson skrifar:
Söngleikurinn Annette var opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes síðastliðið sumar og hlaut m.a. verðlaun fyrir bestu leikstjórn og bestu tónlist á hátíðinni. Aðstandendur eru engir aukvisar – kvikmyndir franska leikstjórans Leos Carax einkennast af miklu sjónarspili og formrænni og frásagnarlegri ævintýramennsku. Honum skaut upp á stjörnuhiminn franskrar kvikmyndagerðar á níunda áratug síðustu aldar en samt hefur hann aðeins sent frá sér fimm kvikmyndir í fullri lengd fyrir útkomu Annette. Sú síðasta, Holy Motors (2012) var stórmynd í landslagi listabíósins – og er ýmist talin vera meistaraverk eða tilgerðarlegt rúnk, en ég hallast að því fyrra. Ný kvikmynd eftir Carax telst alltaf vera viðburður, einmitt vegna fágætis og frumleika verka hans. Annette er þó óvenjuleg hvað leikstjórann snertir, að því leyti að unnið er út frá grunnhugmynd annarra höfunda, nánar tiltekið hljómsveitarinnar Sparks, sem skipar bræðurna Ross og Russell Mael, en þeir skrifa handrit og tónlist myndarinnar. Líkt og með Carax, er tónlist Sparks annáluð fyrir sérvisku sína, en ólíkt leikstjóranum eru bræðurnir iðnir við kolann og hafa dælt út 26 plötum frá árinu 1970. Tónlist þeirra er afar fjölbreytt og írónísk, og teygir poppformið út í ystu æsar. Sönglög Annette fylgja þessum meginstefjum og þeim mætti lýsa sem klikkaðri rokk- eða poppóperu sem fer á köflum líka á svið klassísku óperunnar. Tónlistin er yfirþyrmandi, fyndin og á köflum gullfalleg.
Brechtísk myrkrarmessa frægðar og ofbeldis
Stjörnur myndarinnar eru leikararnir Adam Driver og Marion Cotillard (Ko-ti-jar). Driver túlkar uppistandarann Henry McHenry, sem kemur fram í baðslopp og misbýður fólki með almennum dólgslátum og mannhatri. Eins konar skrítinn kokteill af Andy Kaufman, Bill Hicks og Bo Burnham. Cotillard leikur Ann, gríðarfræga óperusöngkonu við tónleikahús Los Angeles-borgar. Þegar hér er komið sögu hafa Ann og Henry stungið saman nefjum og leiðist ekki að flagga ást sinni fyrir æsiljósmyndurum þegar Henry sækir Ann á mótorhjóli fyrir utan óperuhúsið eftir skemmtanir þeirra tveggja. Sagan er þó innrömmuð og einkennist að miklu leyti af framandgervingu en hún vísar sífellt á tilbúning sinn. Í upphafsatriðinu sést leikstjórinn Carax ásamt dóttur sinni ýta á upptökutakkann í hljóðveri og Sparks-liðar hefja að syngja „Can we start? – Megum við byrja?“. Öll ganga þau síðan út úr hljóðverinu á stræti Los Angeles-borgar þar sem aðalleikararnir Driver og Cotillard slást í hópinn, sem þau sjálf. Mörk fantasíu og raunveruleika eru almennt óskýr innan söguheimsins, í einni aríunni opnast bakhlið sviðsmyndarinnar og Ann stígur inn í skóglendi þar sem hún hittir dádýr á meðan hún syngur og snýr svo aftur á svið óperunnar. Bókstaflegir söngtextar ýta einnig undir íróníska fjarlægð – í ástardúetti verksins syngja elskendurnir „We love each other so much – Við elskum hvort annað svo mikið“ – á meðan Henry er myndaður í gjafmildri stellingu á svefnherbergisgólfinu. Fræga parið eignast síðan barn, Annette, en hún er leikin af brúðu, en vert að taka fram af brúðuleikurinn er snilldarlegur. Annette er alvöru barn en það er áhorfandans að taka það trúanlega. Það sem í fyrstu virðist jafnvel vera ástarsaga reynist vera allt annað. Frásögnin kafar djúpt inn í andlegt karlmennskutóm og myrkur en framvindan og sjónarspilið kemur sífellt á óvart.
Eins og hér hefur verið lýst setur Annette áhorfandanum ýmsar hindranir, áskoranir, og er líka nokkuð ljóst að hún er ekki fyrir alla. Í mínu tilfelli dró hún mig þó sífellt meira inn, þrátt fyrir að vera yfirþyrmandi í ofgnótt sinni. Það er ekki annað hægt en að heillast af listaverki sem er jafn óskammfeilið í einurð sinni. Óttinn við föðurhlutverkið er meginstef og er miðlað á áhrifaríkan máta og snerti tvímælalaust taug en önnur þemu eins og frægð og performans höfðuðu líka til mín. Einnig þarf að minnast á frábæran leik, þá sérstaklega Adams Drivers og titilpersónunnar. Í raun er ég enn að melta myndina og finnst hún í senn heillandi og óþægileg og vil tvímælalaust sjá hana aftur sem fyrst. Og þá í bíói, því Annette er bíómynd fyrir allan peninginn.