Kristín Ómarsdóttir sýnir meistaratakta í frumlegri beitingu tungumálsins í sagnasafninu Borg bróður míns, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.
Gauti Kristmannsson skrifar:
„Hvernig líður frímerkjum“ er spurt eins og ekkert sé á einum stað í þessari bók og þegar þar er komið sögu er það eiginlega ósköp venjuleg spurning, í samhengi þessara sagna að minnsta kosti. Þetta kemur fyrir í næstsíðustu sögunni í þessu sagnasafni sem samanstendur af ekki beinlínis örsögum og ekki beinlínis smásögum, heldur einhverju öðru, eiginlega Kristínar Ómarslegu formi, ævintýrum fyrir fullorðna sem gerast í einhverjum hliðarveruleika, sem þó er lýst með tækjum raunsæis. Þessi veruleiki verður nýr til í hverri sögu án áreynslu, allt er sjálfsagt en samt svo ófyrirsjáanlegt að það er enginn vegur að átta sig á hvað kemur næst. Raunar eru nokkrar sögur sem eru beinlínis ævintýri með prinsum og öllu, en það er ekkert eins og það sýnist þar frekar en annars staðar.
Frásagnirnar í bókinni eru tæplega sextíu að tölu og tengjast sumar, að manni sýnist. Sögusviðið er einhver borg sem við ekki þekkjum, „nálæg borg, borg í fjarska, hvergi“ eins og segir á kápunni. Umfjöllunarefnin eru ástin, dauðinn, örlögin, annarleiki tilverunnar, og framar öllu sorgin, harmurinn, sett fram með svo súrrealískum hætti að lesandinn verður að hafa sig allan við; kannski er best að lesa bókina með hléum eða oftar en einu sinni. Frumleg beiting tungumálsins er hér lykilatriði og verður að segjast að Kristín sýnir hér meistaratakta í þeim efnum, ég nefni eitt lítið dæmi: „Hún hamrar orðin og harmar orðin sem hún hefur [í áranna rás] oftast mælt eins og af færibandi – ósjálfrátt – hugsunarlaust – orð sem bergmála það sem hún um ævina hefur heyrt og lesið – eins og sú fylgdarmey, hjarðmey – líruleikari? – sem hún í eðli sínu er og trú eðli sínu sem er kannski ekki eðli hennar – til þess eins að halda uppi (hjákátlegum?) samræðum og látast friðsamlega, látast vera til, líta út fyrir að vera heilbrigð og góð, taka þátt í ójöfnum leik, fyrirfram töpuðum“. Þetta er kannski ekki svo lítið dæmi, ein málsgrein en löng, með orðaleikjum endurtekningum og retorískri byggingu sem hittir í mark.
Frásagnirnar eru, sumar hverjar, laustengdar og sögusviðið einhvern veginn nálægt en það er ekkert knýjandi samhengi á milli þeirra annað en umfjöllunarefnin sjálf, á stundum einungis nöfn persóna sem eru nánast alltaf óvenjuleg og einhverjar þeirra koma fyrir í fleiri en einni sögu, einnig hlutir eins og færibandið, og rauðir hanskar, tárin sem koma víða fyrir og undirstrika lífssorg persónanna sem einhvern veginn felst í ómöguleika og hræsni þess sem kallað er „eðlilegt líf“. Dæmi um þetta eru hjónin Hefill og Himnabrúður, í ævintýrinu „Yndisfólk“ þar sem öllu er snúið við sem tilheyrir ævintýri, sagan segir fyrst frá hamingju þeirra, síðan krísu og endar á grimmilega íronískri lausn.
Sumar sagnanna eru beinlínis tengdar eins og til dæmis „Leit að dýpri (nýrri öðruvísi merkingu)“ og „Lofthelgin“, sögur sem snúast um tvö pör í nágrannahúsum borgarinnar óræðu, úr eldhúsglugga hvors um sig má sjá inn um hinn og upplifa hrollvekjandi borgaralegar ástir á heimilum þar sem allt á að vera í lagi, en er það ekki, eins og hjá Brúnó og Júlíu þar sem hún finnur fyrir þunga rútínunnar og segir í óróa sínum: „„Frekar skyldi ástin kosta okkur lífið, Brúnó – “ / „Ég skil þig ekki, ástin mín,“ hrópaði Brúnó en Júlía henti sér fang hans og hvíslaði í eyrað hans: „Skilningur hefst á óskiljanleika.““ Túlkunarfræðingurinn Friedrich Schleiermacher hefði ekki getað orðað það betur. Nágrannahjónin, Reynir Franz og Mónalísa, koma fyrir í lokin á fyrri sögunni og renna viðstöðulaust inn í þá síðari og virðast þau líta á sig sem eitthvað betra en þau Júlíu og Brúnó, en vitanlega er fiskur undir steini. Eftir að hafa slegið Mónulísu biðst Reynir Franz fyrirgefningar og hugsar sér síðan að leita til vændiskonu daginn eftir. Mónulísu er skemmt: „Drifkraftur kynhvatar er harmur, hugsaði hún en breytti strax um skoðun: drifkraftur kynhvatar er hatur.“
Svo mörg eru þau orð en ástin er eins og áður sagði eitt af meginþemum bókarinnar, kynlíf í margvíslegum myndum, gagn- og samkynhneigt, kynsegin; það er þó ekki aðalatriðið, en sprengir upp frásagnir með óvæntum hætti hér og þar, ástin sjálf fær hins vegar oft æði kaldhæðna meðferð eins og í þremur sögum, nánast ljóðum, sem allar byrja á heitinu Söngur, sú fyrsta „Söngur karls sem sat við eldhúsgluggann í regnkápu með gítar“ frá sjónarhóli karls sem er í sárum, að því er virðist, fullur fyrirlitningar og söknuðar til konu sem farin er frá honum, átökin milli ástar og haturs mynda ljóðræna spennu af gremju og þrá. „Söngur karls er lá í sófa á villirósaheimili með gítar“ hljóðar síðan talsvert öðruvísi. Er þetta sami karl? Við vitum það ekki, en ástarjátningin er heit, íronían felst í viðurkenningu hans á vanþroska sínum sem snýst upp í ásökun. Samt segist hann elska hana að eilífu, ástin tvíeggjuð hér eins og í mörgum öðrum sagnanna. „Söngur stúlku með gítar“ er hins vegar einlægt ljóð við fyrstu sýn, kannski naíft að einhverju leyti, en ljóðmælandanum, stúlkunni, finnst hún elskuð þrátt fyrir galla sína. Veki ljóðið hugljúfar, ef ekki væmnar tilfinningar í brjóstum lesenda er síðan gengið frá þeim í næsta texta, samblöndu af frásögn og ljóði sem heitir einfaldlega „HÚN“ með stórum stöfum.
Það er þó ekki allt löðrandi af kaldhæðni þegar kemur að ástinni og kynlífinu eins og í sögunni þar sem Sindra og Fanný „elskast eins og frímerki. / Eða þeim líður eins og frímerkjum á meðan þær elskast. / Hvernig líður frímerkjum?“ Sagan endar á því að verslunareigandinn sem þær stöllur kaupa frímerkin sín hjá, hún Hólmar Símon, fer heim og þar „flóar ást ástarinnar ástinni mjólk í potti.“
Af mörgu fleira er að taka í þessu nýjasta verki Kristínar Ómarsdóttur, auðvitað er ekki allt jafn gott og það besta þegar svo margar sögur eru undir, en það er óhætt að segja súrrealískur frásagnarkraftur og frumleg beiting tungumálsins í Borg bróður míns sé hreint ævintýri fyrir lesendur.