Það er fátt sem kemur manni í jafn mikið jólaskap og góð salíbuna niður sleðabrekku. Þetta vita ellilífeyrisþegar í úkraínsku borginni Ternopil, sem þáðu boð um að þeytast niður brekkur á uppblásnum belgjum á dögunum.
Þetta er annað árið í röð sem stjórnvöld í Ternopil-borg í vesturhluta Úkraínu skipuleggja nokkurs konar sleðaferðir fyrir ellilífeyrisþega á svæðinu.
„Þetta bætir geð, adrenalín eykst og lífslöngunin styrkist, þótt við séum á eftirlaunum,“ segir Svitlana Shkvarko. Olga Zablotska tekur í sama streng.
„Þegar ég bjó í þorpinu renndi ég mér svona á stórum sleða. Nú fór ég einu sinni niður brekkuna og tilfinningin er ólýsanleg,“ segir hún.