Hurðirnar á kennslustofunum í Grunnskólanum á Hvammstanga taka á sig alveg nýja mynd á aðventunni. Þá er keppni í skólanum um hvaða bekkur á jólalegustu hurðina. Áttundi bekkur sigraði í ár.

Einn dag á aðventunni leggja nemendur og kennarar í Grunnskóla Húnaþings vestra frá sér námsbækurnar og skreyta skólann hátt og lágt. Í fyrravetur hljóp keppnisandi í mannskapinn og þá var ákveðið að halda jólaskreytingakeppni milli bekkja. Keppnin fólst í því að skreyta hurðirnar á kennslustofunum.

Mikill spenningur þegar úrslitin voru kynnt

Þetta er nú orðinn árviss viðburður á aðventunni og óhætt að segja að mikill metnaður sé lagður í skreytingarnar. „Já, það var mikill metnaður í fyrra og hann er bara enn meiri núna. Það var mikill spenningur þegar við skólastjórnendur fórum í morgun og tilkynntum úrslitin,“ segir Sigurður Þór Ágústsson, skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra.

Áttundi bekkur átti best skreyttu hurðina

Það var 8. bekkur sem átti verðlaunahurðina, annað árið í röð. Og hugmyndin á bak við skreytinguna er ákaflega einföld. „Kennarinn okkar sagði okkur bara að fara á Pinterest og ég sá þessa mynd og fannst þetta flott,“ segir Valgerður Alda, nemandi í 8. bekk. Og Svava Rán, bekkjarsystir hennar, segir að bekkurinn hafi allur unnið saman að skreytingunni. „Við skiptum verkefnunum upp á milli hópa.“ Og að launum fengu þau morgunverð í stofuna sína.

Góð samvinna um allan skóla

Sigurður Þór segir að verkefni sem þetta skipti miklu máli, því áhuginn og metnaðurinn smitist um allan skóla. „Það gerir það og auðvitað snýst þetta um samvinnu og hópaverkefni þar sem reynir á að skipta með sér verkum, deila, hanna og setja upp.“